Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 1. - 7. janúar

Forstjóri WHO á vettvangi hamfarasvæðis

Dr LEE Jong-wook, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, er í fimm daga ferð um hamfarasvæðin í Indónesíu og Sri Lanka til að sjá með eigin augum afleiðingar hörmunganna austur þar. Forstjóri WHO tók þátt í fundum leiðtoga Austurlanda i Jakarta þar sem stjórnmálaleiðtogar mátu afleiðingar flóðbylgjunnar í löndunum við Indlandshaf. Hann ferðaðist um í fylgd framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu WHO í Suð-Austur Asíu, Dr Samlee Plianbangchang. Forstjórinn bar lof á frumkvæði íbúa Ache og hrósaði þjóðum heims fyrir viðbrögðin við hamförunum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur þunga áherslu á að tryggja og bæta ástand heilbrigðismála á svæðinu og forða með því frekari hörmungum á svæðinu.

Fulltrúar Norðurlandaþjóða hittast á Íslandi til undirbúnings framkvæmdastjórnarfundi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Fulltrúar Norðurlandaþjóðanna heimsækja heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið á mánudaginn, 10. janúar, þar sem fram fer undirbúningsfundur vegna fundar framkvæmdastjórnar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem haldinn verður dagana 17. - 25. janúar nk. í Genf. Þessi framkvæmdastjórnarfundur er sá seinni af tveimur sem Ísland stýrir á formennskutímabili sínu, en Ísland á sæti í framkvæmdastjórn til maí 2006. Meðal umfjöllunarefna verða viðbrögð stofnunarinnar við neyðarástandi og mun umræðan þá sérstaklega beinast að hamförunum í SA-Asíu. Stofnunin hefur tekið mikinn þátt í því starfi sem fram fer á hamfarasvæðinu og fylgist m.a. grannt með þeim sjúkdómum sem upp koma með tilliti til farsótta. Önnur mál á dagskrá eru áfengisvarnir sem Norðurlöndin hafa lagt mikla áherslu á, alþjóðaáætlun varðandi aldraða, stofnun árlegs blóðgjafadags, heilbrigðistryggingar, ábyrg notkun lyfja, næring ungbarna, aukin áhersla á þúsaldamarkmið Sameinuðu þjóðanna, endurskoðun alþjóðaheilbrigðisreglna um viðbrögð alþjóðasamfélagsins við sjúkdómum á borð við HABL (SARS), alnæmislyf til handa þróunarríkjunum, inflúensa, malaría, notkun alheimsnetsins til dreifingar heilbrigðisupplýsinga og fjármál stofnunarinnar til næstu tveggja ára svo eitthvað sé nefnt.

Heimsíða WHO: www.who.int

Gögn fyrir framkvæmdastjórnarfundinn: http://www.who.int/gb/e/e_eb115.html

Listi yfir greiðslur fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu árið 2005

Tryggingastofnun ríkisins (TR) hefur tekið saman lista yfir greiðslur fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu árið 2005. Gerð er grein fyrir kostnaði sjúklinga vegna þjónustu miðað við almennt gjald, gjald fyrir börn og lífeyrisþega, kostnaði miðað við umönnunarkort o.fl. Á meðfylgjandi slóð TR má nálgast margvíslegar upplýsingar um greiðsluþátttöku sjúklinga og TR fyrir þjónustu.

Formennskuár Íslendinga hjá Norrænu ráðherranefndinni – horft um öxl

Nú er nýlokið farsælu formennskuári Íslendinga í nefndum og stjórnum stofnana á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar Norðurlanda hittust á árlegum fundi sem haldinn var á Egilsstöðum í ágúst. Margvísleg heilbriðgismál voru rædd á fundinum en meginþemað voru samfélagsbreytingar á Austurlandi og heilbrigis- og félagslegar afleiðingar þeirra. Einkum var rætt um möguleg áhrif framkvæmda á Austurlandi á þróun byggðarlagsins í framtíðinni.

Boðað var til aukafundar ráðherranna um áfengismál á Norðurlöndum 18. október í Kaupmannahöfn. Í sameiginlegri yfirlýsingu var hvatt til aukinnar samvinnu þjóðanna á þessu sviði. Í lok árs 2004 skrifuðu Norræni lýðheilsuháskólinn og Háskóli Íslands undir samstarfssamning með það að markmiði að stuðla að rannsóknum, menntun og fræðilegri þróun á sviði lýðheilsu. Nemendaskipti, kennaraskipti, gagnkvæm viðurkenning skólanna á námskeiðum og sameiginlegt námskeiðahald er meðal efnisatriða samningsins.

Verkefni á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem lúta að heilbrigðismálum eru fjölmörg og viðamikil. Fræðast má um starfsemi nefndarinnar á heimasíðu nefndarinnar: http://www.norden.org/start/start.asp



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta