Iceland er á lista 100 vinsælustu leitarorða Breta á veraldarvefnum
Iceland er á lista, sem breska dagblaðið Daily Mirror birti á dögunum, með 100 vinsælustu leitarorðum Breta á Netinu á nýliðnu ári.
Iceland er þar í 69.sæti, en aðeins 5 lönd eru ofar á listanum; Kýpur í 24.sæti, Spánn í 44.sæti, Frakkland í 48.sæti, Ástralía í 56.sæti og Malta í 64.sæti.
Ferðamál er málaflokkur samgönguráðuneytisins og hefur Ferðamálaráð Íslands unnið markvisst að því að kynna land og þjóð. Í dag heldur Ferðamálaráð t.d. úti þremur vefsíðum, á sex tungumálum, sem ætlaðar eru til landkynningar. Kannanir sem Ferðmálaráð hefur staðið fyrir sýna að veraldarvefurinn er sá upplýsingamiðill sem flestir ferðamenn, sem sækja landið heim, segjast fá upplýsingar um Ísland.
Vefstjóri Ferðamálaráðs, Halldór Arinbjarnarson, telur að góð staða á leitarvélum sé lykilatriði fyrir þá sem vilja vera sýnilegir á Netinu. Ferðamálaráð hefur m.a. sett sér markmið um að ná góðum árangri á helstu leitarvélum með orðið "Iceland". Í dag er staðan sú að sé Iceland slegið inn á leitarvélum þá eru landkynningar Ferðamálaráðs allsstaðar meðal þeirra efstu.
Fyrir áhugasama má benda á lista Daily Mirror, landkynningarvefinn www.visiticeland.com og vef Ferðamálaráðs www.ferdamalarad.is.