Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2005 Utanríkisráðuneytið

Íslensk stjórnvöld verja 1 milljón Bandaríkjadala til sjálfbærrar þróunar smáeyþróunarríkja

Hjálmar W. Hannesson og Jón Erlingur Jónasson
Frá fundi S.þ. um sjálfbæra þróun smáeyþróunarríkja

Dagana 10. – 14. janúar var haldinn á Máritíus alþjóðlegur fundur á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem megin umræðuefni var framkvæmdaáætlun smáeyþróunarríkja um sjálfbæra þróun. Á dagskrá fundarins var endurskoðun sérstakrar framkvæmdaáætlunar um sjálfbæra þróun smáeyþróunarríkja sem samþykkt var á Barbados fyrir 10 árum í kjölfar Ríó ráðstefnunar um umhverfi og þróun árið 1992.

Áherslur og aðgerðir framkvæmdaáætlunarinnar beinast sérstaklega að þeim vandamálum sem smáeyþróunarríkin eiga sameiginleg. Helsta sérstaða ríkjanna er að hagkerfi þeirra eru lítil, atvinnuvegir einhæfir, flutningar kostnaðarsamir vegna landfræðilegra aðstæðna og hversu berskjölduð þau eru fyrir hverskonar náttúruhamförum. Fátækt er einnig mikil og margt sem hamlar frekari þróun s.s. skortur á sjálfbærum lausnum í orkumálum, en einnig eru ónýtt tækifæri til vaxtar s.s. í sjávarútvegi.

Fundinn sóttu fyrir hönd Íslands, Hjálmar W. Hannesson sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og Jón Erlingur Jónasson sendiráðunautur frá utanríkisráðuneytinu. Af Íslands hálfu var á fundinum einkum lögð áhersla á eflingu samstarfs íslenskra stjórnvalda við þennan hóp ríkja og sameiginlega hagsmuni varðandi málefni hafsins og sjálfbærrar þróunar.

Í ávarpi fastafulltrúa á fundinum kom m.a. fram að íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að leggja aukna áherslu á þróunarsamvinnu við smáeyþróunarríkin með sérstökum sjóði til verkefna á sviði sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda. Sem liður í auknum framlögum ríkisstjórnarinnar til þróunarmála verður á næstu þremur árum varið um 65 m.kr. (jafnvirði einnar milljónar Bandaríkjadala) til verkefna í þessum ríkjum.

Hjálagt fylgir ræða fastafulltrúa á ensku og vefslóð samtaka smáeyþróunarríkja, en þar verður hægt að nálgast framkvæmdaáætlunina og ályktun fundarins.

Ræða fastafulltrúa (á ensku).

http://www.un.org/smallislands2005/

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta