Siglingastofnun breytir framkvæmd við skráningu á aðalskipaskrá
Í kjölfar nýs álits Umboðsmanns Alþingis (mál nr. 4176/2004) hefur verið ákveðið, til að tryggja samræmi á milli skipaskrár og þinglýsingabóka, að framvegis miðist breytingar á eigendaskráningu í aðalskipaskrá hvort heldur sem er við þinglýstan kaupsamning eða afsal.
Þann 24. maí 2004 kvað samgönguráðuneytið upp úrskurð í máli vegna ágreinings um hvort rétt væri að miða skráningu í skipaskránni við þinglýsingu kaupsamnings eða afsals. Kvartandi, sem hafði keypt skip, hafði óskað eftir að vera skráður sem eigandi í skipaskrá á grundvelli kaupsamnings. Siglingastofnun hafnaði þeirri beiðni. Stofnunin byggði á áralangri framkvæmd á ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 um skráningu skipa; með þeim rökum að kaupsamningur sé skilyrt eignarheimild og því sé rétt að byggja á afsali. Samgönguráðuneytið staðfesti niðurstöðu Siglingastofnunar m.a. með þeim rökum að vegna réttaráhrifa skipaskráningar í alþjóðlegum siglingarétti sé nauðsynlegt að eingayfirfærslan sé endanleg og óskilyrt. Eins og áður sagði taldi Umboðsmaður Alþingis þá framkvæmd ekki byggjast á réttri túlkun gildandi laga.
Rök Umboðsmanns voru einkum þau að tilgangur 1. mgr. 12. gr. laga nr. 115/1985 sé að gæta fulls samræmis á milli þess hver sé skráður eigandi í aðalskipaskrá og þess hver hefur yfir að ráða þinglýstri eignarheimild að lögum. Lögð er áhersla á að skilyrðið fyrir skráningu í skipaskrá að nýr eigandi hafi fengið eignarheimild sinni þinglýst. Um þetta vísar Umboðsmaður í nokkra dóma hæstaréttar um að kaupandi sem þinglýst hefur kaupsamningi að fasteign öðlist þar með hina formlegu eignarheimild í skilningi þinglýsingarlaga. Raktar eru athugasemdir í frumvarpi til þinglýsingalaga hvar segir að afsali verði ekki þinglýst sem eignarheimild nema það sé óskilyrt. Nánar er skýrt að afsal sé gild eignarheimild ef það er bundið því skilyrði einu að kaupverð verði greitt innan tiltekins frests. Ef fleiri skilyrði eru verður afsali þinglýst sem kvöð á eign. Þessi tilvísun, ásamt dómum hæstaréttar, er notuð til að komast að þeirri niðurstöðu að yfirfærsla eignaréttar ráðist ekki aðeins af heiti skjalanna heldur verði að byggja á efni þeirra. Það skipti því ekki máli hvort eignarheimildin heiti kaupsamningur eða afsal svo framarlega að eina skilyrðið fyrir yfirfærslu sé greiðsla kaupverðs.
Niðurstaða Umboðsmanns er því sú að við úrlausn þess hvort nýr eigandi hafi fullnægjandi eignarheimild þannig að skilyrði skráningar í skipaskrá sé fyrir hendi, ráðist af því hvort um sé að ræða eignarheimild í skilningi þinglýsingalaga nr. 39/1978, sem hafi verið þinglýst samkvæmt þeim lögum.
Síðan kveður hann að samkvæmt aðgreiningarreglum stjórnsýsluréttar geti hvert stjórnvald aðeins fjallað um það réttaratriði sem því er sérstaklega falið með lögum. Sýslumenn séu þinglýsingastjórar samkvæmt þinglýsingalögum og því eigi Siglingastofnun að fara eftir því sem þinglýsingastjóri meti gilda eignarheimild. Telji Siglingastofnun vafa leika á um að sú þinglesna eignarheimild sem send er með beiðni um skráningu í skipaskrá geti hún óskað eftir vottorði frá þinglýsingastjóra þar um.
Þessi aðgreiningarregla felur í sér að Umboðsmaður telur Siglingastofnun ekki hafa forræði yfir mati á því hvað sé gild eignarheimild samkvæmt lögum um skráningu skipa. Það sé alfarið í höndum þinglýsingastjóra vegna sjónarmiðanna um samræmi á milli skráa.
Samgönguráðuneytið vill benda á að nýja framkvæmdin gerir ríka kröfu til þeirra sem kaupa og selja skip að vanda til samningsgerðarinnar. Einkum er haft í huga að samið sé sérstaklega um uppgjör á opinberum gjöldum og atriðum sem samkvæmt lögum um skráningu skipa fylgja umskráningu í aðalskipaskrá. Bent er á að í fasteignaviðskiptum miðast uppgjör slíkra krafna svo og afborgana áhvílandi veðskulda við afhendingu eignar.