Áætlun menntamálaráðuneytis til þriggja ára um ytri úttektir á háskólastigi
Lögum samkvæmt hefur menntamálaráðherra eftirlit með gæðum menntunar sem háskólar landsins veita. Markmið gæðaeftirlits með kennslu á háskólastigi er að viðhalda og auka gæði kennslu í háskólum, bæta skipulag í starfsemi skólanna, stuðla að aukinni ábyrgð háskólastofnana á eigin starfsemi og tryggja samkeppnishæfni þeirra á alþjóðavettvangi.
Í samningum um kennslu og rannsóknir sem menntamálaráðuneytið gerir til þriggja ára við hvern háskóla eru sett sérstök ákvæði um aukin gæði náms og þróun gæðakerfa á háskólastigi. Þar er m.a. tekið fram að menntamálaráðuneytið skuli birta yfirlit yfir úttektir sem gerðar eru á ákveðnu tímabili á háskólastigi.
Menntamálaráðherra hefur ákveðið að eftirfarandi úttektir á háskólum verði gerðar á árunum 2005-2007:
-
Háskólinn á Akureyri: Á vormisseri 2005 verður gerð stofnanaúttekt á háskólanum og haustið 2006 mun hefjast fagúttekt á félagsvísinda- og lagadeild.
-
Háskóli Íslands: Á vormisseri 2005 hefst fagúttekt á hugvísindadeild háskólans og á vormisseri 2006 verður einnig gerð fagúttekt á raunvísindadeild.
-
Háskólinn í Reykjavík: Gerð verður fagúttekt á lagadeild háskólans haustið 2007.
Þá verður árið 2007 gerð fagúttekt á meistaranámi í viðskiptafræði þvert á þær stofnanir sem upp á það nám bjóða en það eru Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Viðskiptaháskólinn á Bifröst.
Ákvörðun um þessar úttektir útilokar þó ekki framkvæmd annarra úttekta og gerð kannana á háskólastigi á tímabilinu.
Menntamálaráðuneytið, 17. janúar 2005