Ný vefsetur utanríkisþjónustunnar
Utanríkisráðuneytið stendur nú fyrir gagngerri endurnýjun vefsetra utanríkisþjónustu Íslands. Opnaður hefur verið nýr inngangsvefur utanríkisþjónustunnar, www.iceland.org, og tvö ný vefsetur sendiráða Íslands, í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Ennfremur hefur opinber upplýsingavefur um Ísland á ensku, www.iceland.is, verið endurhannaður og opnaður í nýrri mynd.
Utanríkisráðuneytið hefur lagt kapp á að byggja upp vefsetur ráðuneytisins og sendiskrifstofa erlendis og eru þau nú orðin um 30 talsins. Auk aðalvefs ráðuneytisins, www.utanrikisraduneyti.is, og undirvefja rekur ráðuneytið sambærilegan upplýsingavef á ensku, www.mfa.is, almennan upplýsingavef um Ísland, www.iceland.is, sameiginlega vefgátt vefja sendiskrifstofanna, www.iceland.org, auk vefsetra allra sendiskrifstofa Íslands erlendis. Er vefumsýsla hvergi meiri innan stjórnarráðsins. Vefirnir eru mikið heimsóttir og sýna mælingar að vefur utanríkisráðuneytisins er iðulega mest lesni vefur stjórnarráðsvefsins.
Sendiskrifstofur Íslands erlendis reka hvert sitt vefsetur og voru þau flest opnuð árið 2001, nokkur árið 2000. Eru vefsetrin nú 24 að tölu. Vefsetrin eru tvískipt, hluti þeirra hefur að geyma sameiginlegar, almennar upplýsingar um Ísland en hinn hlutinn birtir staðbundnar upplýsingar frá hverri sendiskrifstofu. Til að mæta auknum kröfum um upplýsingaveitu á veraldarvefnum var ákveðið að endurnýja vefsetur utanríkisþjónustunnar og sá Hugsmiðjan ehf. um útlitshönnun og uppsetningu vefjanna í vefumsjónarkerfinu Eplicu. Í þessum fyrsta fasa eru opnuð ný vefsetur tveggja sendiráða, í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi, en fleiri fylgja í kjölfarið á næstu mánuðum.
Sem fyrr birta öll vefsetrin sameiginlegt upplýsingaefni um Ísland á ensku en við endurhönnun þeirra var lögð áhersla á að byggja betur upp staðbundið efni svo vefsetrin nýtist betur starfsemi hverrar sendiskrifstofu. Hvert vefsetur er byggt upp á tveimur til þremur tungumálum - á íslensku, ensku og tungumáli gistiríkis - og miðar efnisleg uppbygging hvers hluta að mismunandi þörfum hvers markhóps. Fastir liðir á hverju vefsetri eru fréttir og tilkynningar af starfsemi sendiskrifstofunnar og ýmsum atburðum sem henni tengjast, að auki birtir viðburðadagatal yfirlit yfir alla skráða viðburði.