Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sameining sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu

Félagsmálaráðuneytið staðfesti hinn 7. janúar sl. sameiningu fjögurra sveitarfélaga í umdæmi sýslumannsins á Blönduósi. Sveitarfélögin sem sameinuðust eru Bólstaðarhlíðarhreppur, Sveinsstaðahreppur, Svínavatnshreppur og Torfalækjarhreppur en íbúar allra sveitarfélaganna samþykktu sameininguna í atkvæðagreiðslu sem fram fór 20. nóvember sl.

Sameiningin tekur gildi 1. janúar 2006 og er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags verði kjörin þann 10. desember 2005. Nafn hins sameinaða sveitarfélags verður auglýst síðar.

Við sameininguna fækkar sveitarfélögum á landinu um þrjú en þau eru nú 101 talsins. Rétt er að geta þess að ráðuneytið staðfesti í desember sl. sameiningu fjögurra sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar og tekur sú sameining gildi 1. júní 2006. Þegar báðar þessar sameiningar hafa tekið gildi verða sveitarfélög á Íslandi því 95 talsins.

Á þessu ári verða greidd atkvæði um sameiningu sveitarfélaga víðsvegar um landið, í samræmi tillögur sameiningarnefndar átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins. Nái þær tillögur fram að ganga má vænta enn frekari fækkun sveitarfélaga en nú þegar hefur náðst fram.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta