Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2005 Innviðaráðuneytið

Iceland Naturally heldur áfram í Norður-Ameríku

Samgönguráðherra skipar stýrihóp verkefnisins.

Samgönguráðherra hefur, f.h. Ríkissjóðs, gert samning við átta íslensk útflutningsfyrirtæki og hagsmunaaðila um markaðssókn og kynningu á Íslandi og íslenskum vörum í Norður-Ameríku. Verkefnið gengur undir heitinu Iceland Naturally. Áður hafði verið gerður fimm ára samningur undir sama heiti en hann rann út í lok síðasta árs. Nýi samningurinn er til fjögurra ára.

Samgönguráðherra hefur skipað tíu manna stýrihóp Iceland Naturally en í honum eru tveir fulltrúar samgönguráðherra og er annar þeirra formaður hópsins, tveir fulltrúar forsætisráðherra, tveir fulltrúar utanríkisráðherra og þrír fulltrúar stærstu hagsmunaaðila að samningnum, þ.e. Icelandair, Icelandic® USA Inc., og Iceland Seafood Corp., og einn fulltrúi Bændasamtaka Íslands.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts er formaður stýrihópsins. Aðrir fulltrúar eru Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi, Atli Ásmundsson, ræðismaður Íslands í Winnipeg, Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Magnús Gústafsson, forstjóri Icelandic® USA Inc., Páll Magnússon, aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair sem og Ævar Agnarsson fulltrúi Samband of Iceland.

Gert er ráð fyrir að árlegu framlagi að upphæð einni milljón bandaríkjadala á ári til Iceland Naturally og er framlag ríkisins um það bil 70% fjárins, en fyrirtækin leggja fram 30%. Gert er ráð fyrir að þessir fjármunir standið straum af auglýsingum, fjölmiðlaherferð, viðburðum og kynningum í einstökum borgum sem og kynningu á einstökum fyrirtækjum í verslunum og á veitingahúsum. Reglubundnar markaðsrannsóknir verði síðan gerðar til að meta áhrif verkefnisins.

Framkvæmd Iceland Naturally er stýrt frá skrifstofu Ferðamálaráðs í New York í samstarfi við Viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í sömu borg.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta