Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2005 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur Afríkuframtaks Norðurlandanna í Dar Es Salaam

Fjármálaráðherra í Dar
Fjármálaráðherra í Dar

Dagana 19.-20. janúar tók Geir H. Haarde, fjármálaráðherra þátt í ráðherrafundi Norðurlanda og tuttugu Afríkuríkja, svonefndu Afríkuframtaki Norðurlandanna, í Dar Es Salaam, Tansaníu. Einkunnarorð ráðstefnunnar eru ,,Viðskipti og þróun: hvað er í húfi fyrir Afríku”. Fjármálaráðherra stjórnaði pallborðsumræðum sérfræðinga á fundinum. Í inngangserindi sínu fjallaði hann um hvernig frjáls viðskipti geti hjálpað Afríkuríkjum í baráttunni gegn fátækt.

Upphafið að Afríkuframtakinu má rekja til strands viðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) í Kankún haustið 2003, en margir töldu eina af ástæðum þess vera samskiptaörðugleika milli þróaðra ríkja og þeirra sem fátækari eru.

Markmið Afríkuframtaksins er að styrkja samskipti og samráð milli Norðurlandanna og Afríkuríkja á sviði alþjóðaviðskipta og þróunar. Meðal viðfangsefna fundarins voru viðskiptaumhverfi Afríkuríkja og hvernig frjáls viðskipti geti aukið hagvöxt, hlutverk frjálsra viðskipta í alþjóðlegri baráttu gegn fátækt og viðskiptatengd þróunaraðstoð.

Til viðbótar við Norðurlöndin og Afríkuríkin tók fjöldi alþjóða– og svæðisbundinna stofnana þátt í fundinum, og ber þar helst að nefna Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðaviðskiptastofnunina og Afríkusambandið.

Sýnt hefur verið fram á að aukin alþjóðaviðskipti eru nauðsynleg forsenda þess að markmið alþjóðasamfélagsins í baráttunni gegn fátækt, hin svokölluðu Þúsaldarmarkmið, nái fram að ganga fyrir árið 2015. Er því ljóst að Afríkuframtak Norðurlandanna er þarft og tímabært innlegg í þá baráttu.

Nánari upplýsingar veita Anna Hjartardóttir, sendiráðsritari, s: 864 9993 og Ragnheiður Árnadóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, s: 862 0028

Frekari upplýsingar um Afríkuframtakið má finna á www.ud.se/nai

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta