Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Samningur við Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóð og Háðvöru

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, og Hilmar Jónsson, leikhússtjóri Hafnarfjarðarleikhússins Hermóðs og Háðvarar, undirrituðu í dag 21. janúar 2005 samning um stuðning við starfsemi Hafnarfjarðarleikhússins Hermóðs og Háðvarar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, og Hilmar Jónsson, leikhússtjóri Hafnarfjarðarleikhússins Hermóðs og Háðvarar, undirrituðu í dag 21. janúar 2005, samning um stuðning við starfsemi Hafnarfjarðarleikhússins Hermóðs og Háðvarar.

Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör hefur um árabil verið áberandi í íslensku leikhúslífi. Leikhúsið fékk fyrst styrk á árinu 1995 frá menntamálaráðuneytinu samkvæmt tillögu úthlutunarnefndar Leiklistarráðs til uppsetningar á verki Árna Ibsen, Himnaríki, sem fékk góðar viðtökur jafnt áhorfenda sem gagnrýnenda. Ári síðar var gerður tveggja ára starfssamningur við leikhúsið sem endurnýjaður var árið 1998. Árið 2000 var gerður samningur um samstarf menntamálaráðuneytis, Hafnarfjarðarbæjar og Hafnarfjarðarleikhússins sem rann út nú um áramótin. Á starfsferli sínum hefur Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör skapað sér nafn sem framsækið leikhús og hlotið ýmsar viðurkenningar, verið boðið á leiklistarhátíðir víða um Evrópu og fengið lof fyrir listrænan metnað og frumleika. Hafnarfjarðarleikhúsið hefur m.a. sett upp 18 ný íslensk leikverk og átta leikgerðir, þar af sex fyrstu verk höfunda og átta fyrstu verk leikstjóra í atvinnuleikhúsi.

Samningurinn, sem undirritaður er í dag, gildir til fimm ára frá 21. janúar 2005 til 31. desember 2009 og leysir af hólmi samninginn frá árinu 2000. Með samningnum tekur Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör að sér að annast atvinnuleiklistar- og menningarstarfsemi í Hafnarfirði með því að setja upp a.m.k. 2-3 leiksýningar á ári, auk þess sem það skal í starfi sínu leitast við að efla hafnfirskt menningarlíf, m.a. með samstarfi við aðrar menningarstofnanir.

Hafnarfjarðarbær leggur leikhúsinu til kr. 20.866.000 á árinu 2005 og á samningstímanum mun sú upphæð hækka í 23 milljónir. Hafnarfjarðarbær hefur útbúið glæsilega aðstöðu fyrir leikhúsið að Strandgötu 50 en síðustu 10 árin hefur leikhúsið verið í bráðabirgðahúsnæði í gömlu Bæjarútgerðinni.

Menntamálaráðuneytið beitir sér fyrir því að framlög ríkisins til samningsins verði 15 milljónir árið 2005, 17,5 milljón árið 2006 og 20 milljónir árlega 2007-2009. Samninginn verður að finna á vef menntamálaráðuneytis eftir undirritun hans. Slóðin er menntamalaraduneyti.is, nánar tiltekið undir lögum og reglugerðum.

Menntamálaráðuneytið, 21. janúar 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta