Bocuse d'Or matreiðslukeppnin
Íslenskur skötuselur eldaður í Bocuse d’Or matreiðslukeppninni
Bocuse d’Or, frægasta og virtasta matreiðslukeppni heims, hófst í Lyon í Frakklandi í dag, 25. janúar 2005. Keppnin, sem er haldin annað hvert ár, stendur í tvo daga og hafa 24 þjóðir heimild til þáttöku. Klúbbur matreiðslumeistara á Íslandi sendir nú í fjórða sinn þáttakanda í keppnina. Fyrri keppnisdaginn keppa 12 þjóðir og er bæði keppt í að búa til fiskrétti og kjötrétti. Fulltrúi Íslands Ragnar Ómarsson keppir síðari daginn og eru bundnar miklar vonir við framlag hans. Megin bakhjarlar klúbbs matreiðslumeistara í keppninni eru Sjávarútvegsráðuneytið, Útflutningsráð Íslands, SH, SÍF og Flugleiðir.
Árni M. Mathiesen sjávarúvegsráðherra segir ánægjulegt að sjá marga fremstu matreiðslumenn heims meðhöndla íslenska skötuselinn. Greinilegt sé að þeir leggi metnað sinn í að útfæra skötuselsréttina á frumlegan og vandaðan hátt. Ráðherra segist ekki vera í nokkrum vafa um að notkun skötuselsins í keppninni geti orðið til þess að vekja aukinn áhuga á íslenskum ferskum fiski hjá fjölda þjóða. Það sé líka ánægjulegt að bæði keppendur og dómarar hafa komið því á framfæri að íslenska hráefnið, skötuselurinn, sem fiskútflutningsfyrirtækið Tros sendi í keppnina sé afar góður.
Í tilefni af því að íslenskt hráefni var notað í keppninni ákvað SH að vera með sérstakan kynningarbás á Shira vörusýningu matvælaiðnaðarins sem haldin er í tengslum við Bocuse d’Or. Að sögn Gunnars Svavarssonar forstjóra SH hefur þátttakan í sýningunni gengið mjög vel. Hún hafi það umfram aðrar sýningar sem fyrirtækið tekur að jafnaði þátt í að hér náist beint samband við þá sem matreiða úr hráefninu. Það hafi vissulega áhrif á innkaup stóru verslanakeðjanna í framtíðinni.
Útflutningsráð Íslands er einnig með bás í tengslum við matreiðslukeppnina og að sögn Jóns Ásbergssonar framkvæmdastjóra Útflutningsráðs Íslands kemur á óvart hversu gríðalega stór Shira sýningin er. Greinilegt sé að keppnin og sýningin sé sótt af flestum sem láta til sín taka í matreiðslu- og matvælaiðnaði í Frakklandi.
Úrval útsýn skipulagði leiguflug í tengslum við keppnina og fylgja yfir 100 Íslendingar íslenska keppandanum. Mikil stemmning var á pöllunum í dag að sögn Gissurar Guðmundssonar forseta Klúbbs matreiðslumeistara á Íslandi. Hann álítur að Íslendingahópurinn verði íslenska keppandanum mikill stuðningur í keppninni og svo verði niðurstaðan bara að koma í ljós.
Á myndinni sem tekin er á sýningarbás SH eru Þorvarður Óskarsson, Ármann Kr. Ólafsson, Ingvar Sigurðsson, Árni M. Mathiesen, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, Gunnar Svavarsson, Magnús Scheving Thorsteinsson, Pascal Giraud, Bjarki Hilmarsson