Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins

Sem kunnugt er starfar sameiningarnefnd átaksins í samræmi við sveitarstjórnarlög nr. 45/1998, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á Alþingi 26. maí 2004. Í lögunum er lýst heimildum sameiningarnefndar til að leggja fram tillögur um sameiningu sveitarfélaga, auk undirbúnings og framkvæmdar sameiningarkosninga.

Sameiningarnefnd hvetur alla sveitarstjórnarmenn til að kynna sér sérstaklega þau ákvæði sveitarstjórnarlaganna sem varða átak til eflingar sveitarstjórnarstigsins.

Lögin má nálgast á vef Alþingis

Markmið og tillögugerð sameiningarnefndar.

Yfirmarkmið átaks um eflingu sveitarstjórnarstigsins er að sveitarfélög myndi heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði, séu nægilega burðug til að sinna helstu lögbundnu verkefnum sveitarfélaga án samvinnu við önnur sveitarfélög og geti sinnt stjórnsýslu á faglegan hátt. 

Þessi markmið hafði nefndin að leiðarljósi við tillögugerð sína, en allar tillögur eru lagðar fram að höfðu samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Átak um eflingu sveitarstjórnarstigsins

Við undirbúning fyrstu tillagna, sem kynntar voru í september síðastliðnum, sendi nefndin öllum sveitarfélögum og landshlutasamtökum bréf þar sem óskað var samstarfs um vinnslu tillagnanna. Auk þess hélt nefndin 17 samráðsfundi með sveitarstjórnarmönnum vítt og breitt um landið.  

Í september síðastliðnum lagði nefndin fyrstu tillögur sínar um sameiningu sveitarfélaga fram til umsagnar sveitarstjórnar og íbúa. Lagði nefndin til að kosið yrði um sameiningu sveitarfélaga í 80 af 103 sveitarfélögum þann 23. apríl næstkomandi. Sveitarstjórnum og íbúum var gefinn tveggja mánaða umsagnarfrestur, eða til 1. desember 2004.  

Nefndinni bárust 96 umsagnir frá íbúum, sveitarfélögum og landshlutasamtökum. Auk þess átti nefndin fundi með sveitarstjórnum 12 sveitarfélaga þar sem tillögur sameiningarnefndar voru ræddar. Að teknu tilliti til þeirra umsagna sem nefndinni hafa borist mun nefndin leggja fram sína lokatillögur.

 Tillögur sameiningarnefndar verða bindandi að því leyti að íbúar munu greiða um þær atkvæði í samræmi við bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlög nr. 45/1998, með síðari breytingum, sem samþykkt voru á Alþingi 26. maí 2004. Sveitarstjórnir geta með öðrum orðum ekki ákveðið að atkvæðagreiðsla fari ekki fram í þeirra sveitarfélagi. 

Undirbúningur og aðferð við sameiningarkosningu

Í bráðabirgðaákvæði með sveitarstjórnarlögunum segir meðal annars að þær sveitarstjórnir sem sameiningartillaga varðar skuli hver tilnefna tvo fulltrúa í samstarfsnefnd sem annast undirbúning atkvæðagreiðslu um tillöguna og gerð kynningarefnis um áhrif hugsanlegrar sameiningar.  

Samstarfsnefnd er mö.o. ekki ætlað að ræða hvort beri að greiða atkvæði um tillöguna, heldur ber henni að undirbúa kosningu og gera kynningarefni. Reynsla fyrri sameiningarferla sýnir að samstarfsnefndir hafa oft verið farvegur fyrir nýjar hugmyndir og framtíðarsýn fyrir viðkomandi svæði.

 

Athygli sveitarstjórna er vakin á því að ekkert er því til fyrirstöðu að undir samstarfsnefnd starfi vinnuhópar sem fjallað geta um einstök málefni sem miklu skipta við sameiningu sveitarfélaga, svo sem fræðslumál og fjármál. Gert er ráð fyrir því að samstarfsnefndir geti leitað ráðgjafar hjá félagsmálaráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Auk þess má nálgast einfaldar leiðbeiningar í svokölluðum Vegvísi á heimasíðu verkefnisins. 

Samþykkt sameiningar

Í sveitarstjórnarlögunum er tekið fram að sveitarfélag verði eigi sameinað öðrum sveitarfélögum samkvæmt tillögu sameiningarnefndar nema fleiri íbúar þess lýsi sig fylgjandi tillögunni í atkvæðagreiðslu en eru henni andvígir. Það eru því íbúar hvers sveitarfélags sem skera úr um hvort sveitarfélag þeirra verði sameinað öðrum á grundvelli tillögu sameiningarnefndar. 

Samkvæmt 2. mgr. IV. bráðabirgðaákvæðis með lögunum telst sameining sveitarfélaga samþykkt ef sameiningartillaga hlýtur samþykki íbúa í öllum sveitarfélögum sem tillagan varðar og tekur hún þá gildi 9. júní 2006 nema sveitarstjórnir ákveði aðra dagsetningu í samráði við félagsmálaráðuneytið. 

Ef tillaga sameiningarnefndar hlýtur ekki samþykki íbúa í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum, en meiri hluti þeirra sem afstöðu taka í atkvæðagreiðslu um sameiningartillögu lýsir sig þó fylgjandi sameiningu, skal greiða atkvæði að nýju innan sex vikna í sveitarfélögum þar sem tillaga var felld. Skilyrði er að tillagan hafi verið samþykkt í a.m.k. tveimur sveitarfélögum.  Sem dæmi gæti tillaga um sameiningu sveitarfélaga A, B, C og D verið samþykkt í sveitarfélögum A og B, en í þeim býr yfir helmingur þeirra íbúa sem tillagan varðar. Íbúar C og D skulu þá greiða atkvæði aftur innan 6 vikna um sömu tillögu. Rökin fyrir slíkri endurtekningu eru þau að afstaða íbúa C og D kann að breytast við það að vilji A og B verður þeim ljós.

 Að lokinni síðari atkvæðagreiðslu er sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga var samþykkt heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga. Þetta verður þó ekki gert nema tillaga hafi verið samþykkt í a.m.k. 2/3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/3 íbúa á svæðinu. 

Sameiningarnefnd getur ákveðið að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla um þá tillögu skal fara fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006. 

Í sveitarstjórnarkosningum 27. maí 2006 verða sveitarstjórnir hinna nýju sveitarfélaga kjörnar og taka sameiningarnar gildi þann 9. júní sama ár.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta