Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi Skipulagsstofnunar um samráð við skipulag og mat á umhverfisáhrifum 29. janúar 2005

Á málþingi þessu verður fjallað um samráð við skipulag og mat á umhverfisáhrifum. Sveitarfélögin bera meginábyrgð á framkvæmd skipulagsgerðar eftir gildistöku gildandi skipulags- og byggingarlaga. Í skipulagsáætlunum sveitarfélaga er gerð grein fyrir markmiðum viðkomandi stjórnvalda og ákvörðun um framtíðarlandnotkun og fyrirkomulag byggðar og forsendur þeirra ákvarðana. Framkvæmd mats á umhverfisáhrifum er í höndum einstakra framkvæmdaraðila og Skipulagsstofnunar. Við mat á umhverfisáhrifum eru áhrif einstakra framkvæmda á umhverfið metin. Í skipulagsáætlun og mati á umhverfisáhrifum er því fjallað um mikilvæga þætti á sviði umhverfismála sem varða hagsmuni bæði almennings og atvinnulífs. Það er því afar þýðingarmikið að sjónarmið þessara aðila komi fram við skipulagsgerð og mat á umhverfisáhrifum og að þeir nýti sér rétt sinn til að láta skoðun sína í ljós.

Samráð stjórnvalda felst í því að fyrirhugaðar áætlanir þeirra eru kynntar almenningi og öðrum hagsmunaðilum og þeim er síðan gefið tækifæri til að láta athugasemdir sínar í ljós við þær fyrirætlanir. Mikilvægt er að kynning fari fram eins snemma í undirbúningsferlinu og unnt er svo að stjórnvaldið hafi möguleika á að skoða og meta þær athugasemdir sem því berast áður en það tekur endanlega ákvörðun. Þá verður að tryggja að upplýsingar séu settar fram á skýran og aðgengilegan hátt þannig að auðvelt sé að nálgast þær og skilja innihald þeirra. Með samráði fer þannig fram einhvers konar samtal milli stjórnvalda annars vegar og almennings og annara hagsmunaaðila hins vegar um það hvernig umhverfi okkar eigi að vera til framtíðar.

Ég tel mikinn ávinning af samráði við ákvarðanatöku stjórnvalda. Með því er ætlunin að leiða í ljós hvaða áhrif fyrirhuguð ákvörðun stjórnvalds hafi í för með sér og hverjir eru kostir hennar og gallar. Búið er að taka saman helstu upplýsingar sem máli geta skipt og stjórnvald getur þannig tekið upplýsta ákvörðun. Það ætti að leiða til þess að síður komi til ágreinings á milli stjórnvalda og almennings síðar þegar ákvörðun hefur verið tekin enda getur í samráði falist ákveðin málamiðlun. Stjórnvöldum ber að líta á samráð sem tæki til að taka góðar ákvarðanir í sátt við almenning. Það er hins vegar ljóst að ákvörðunarvaldið er hjá stjórnvaldinu sjálfu, eins og samþykki sveitarstjórna á aðalskipulagsáætlun og alltaf getur komið til þess að ekki séu allir sáttir við þá niðurstöðu sem tekin er.

Í skipulags- og byggingarlögum og lögum um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir hvernig samráð og kynning við gerð skipulagsáætlana og mat á umhverfisáhrifum eigi að vera og því er komin nokkur hefð fyrir samráði á þessum sviðum. Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga á grundvelli fenginnar reynslu af framkvæmd laganna og nýrra sjónarmiða sem komið hafa fram á síðustu árum um gerð og framkvæmd skipulags. Við þá endurskoðun verður m.a. leitast við að skýra betur hlutverk mismunandi skipulagsáætlana, tryggja eðlilegt samspil og samræmi milli skipulagsstiga og auka skilvirkni og sveigjanleika í skipulagsgerð. Gert er ráð fyrir skýrari fyrirmælum en áður um kynningu og samráð við gerð skipulagsáætlana, bæði gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Nú nýverið hefur nefnd á vegum umhverfisráðuneytisins, skilað tillögum sínum að lagafrumvarpi vegna lögleiðingar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá árinu 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið. Þar er gert ráð fyrir að tillögur að slíkum áætlunum séu kynntar almenningi ásamt umhverfismati þeirra, sem gert er með svokallaðri umhverfisskýrslu. Við endanlega afgreiðslu áætlunar ber að hafa hliðsjón af umhverfisskýrslu og þeim umsögnum og athugasemdum sem borist hafa á kynningartíma. Gert er ráð fyrir að upplýsingar um það hvernig höfð var hliðsjón af athugasemdum almennings við ákvörðunina séu gerðar aðgengilegar.

Þá vil ég geta þess að á Alþingi er nú til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, þar sem m.a. er lögð áhersla á að matsferlið miði að því að matsskýrsla framkvæmdaraðila lýsi sem best og dragi fram öll veigamikil umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og geri grein fyrir athugasemdum almennings og umsagnaraðila við framkvæmdina.

Í réttarþróun á sviði umhverfismála hefur aukin áhersla verið lögð á þátttöku almennings í ákvörðunartöku sem varðar umhverfismál og að aðgengi almennings að upplýsingum um umhverfismál sé tryggt. Þetta sýnir hve mikilvægt er talið að almenningur eigi rétt á upplýsingum í umhverfismálum og að ákvarðanir sem snerta umhverfið séu teknar á grundvelli sem bestra upplýsinga og séu jafnframt gagnsæjar.

Megin inntak hugmynda um samráð lýtur að því að tryggja betur að þær ákvarðanir sem stjórnvöld taka séu á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga og að sjónarmið þeirra sem hagsmuna eiga að gæta liggi fyrir í málinu áður en ákvörðun er tekin. Forsenda fyrir því að svo geti orðið, er að umsagnaraðilar og almenningur komi sjónarmiðum sínum á framfæri og bendi á það sem betur megi fara. Með virku og öflugu samráði eru stjórnvöld hæfari til að takast á við ákvarðanir um landnotkun og byggðaþróun á komandi árum og áratugum hér á landi.

Með þessum orðum er þetta málþing sett, og ég veit að þið munið eiga hér gagnlegar umræður um það mikilvæga málefni sem hér er til umfjöllunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta