Saga togaraútgerðar á Íslandi
Fréttatilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu
Saga togaraútgerðar á Íslandi spannar nú um 100 ár þar sem Coot, fyrsti togarinn í eigu Íslendinga, kom til hafnar í Hafnarfirði þann 6. mars 1905. Í tilefni af þessum merku tímamótum í atvinnusögu þjóðarinnar hefur sjávarútvegsráðuneytið ákveðið að efna til sérstakrar ráðstefnu um framtíð sjávarútvegsins þann 4. mars næstkomandi sem haldin verður á Hótel Nordica.
Á ráðstefnunni verður gert stuttlega grein fyrir þróun sjávarútvegs á Íslandi. Að því loknu verðu skyggnst inn í þróun smásöluverslunar í heiminum og munu fyrirlesarar koma frá meginlandi Evrópu, Bretlandi og Bandaríkjunum. Frá meginlandinu kemur Johann Lindenberg, stjórnaformaður Unilever í Þýskalandi, Quentin Clark, yfirmaður innkaupa á sjávarfangi hjá Waitrose í Bretlandi og Magnús Gústafsson, forstjóri Icelandic í Bandaríkjunum. Einnig verða tveir fulltrúar íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.
Af sama tilefni hefur bókafélagið Ugla ákveðið að gefa út á ný bók Ásgeirs Jakobssonar, um upphaf togveiða við Ísland, Kastað í flóanum sem út kom árið 1966. Inn í hina nýju útgáfu eru fléttaðir kaflar um útgerð Coots úr bók höfundar Hafnafjarðarjarlinum, Einars sögu Þorgilssonar sem út kom 1987.
Sjávarútvegsráðuneytið og LÍÚ styrkja útgáfu bókarinnar.
Þá verður gert sérstak átak í því að efla innsýn skólabarna í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveg, með verkefninu; Sjávarútvegsvefur grunnskólanna. Sjá sameiginlega fréttatilkynningu frá sjávarútvegsráðuneyti og menntamálaráðuneyti sama dag.
Sjávarútvegsráðuneytið 2. febrúar, 2005