Geðheilbrigðisþjónusta heilsugæslunnar efld
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, hefur skipt sérstakri fjárveitingu til að efla geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar. Fjárveitingin í ár er 42,1 milljón króna og skiptist hún niður á fimm verkefni. Tólf milljónir króna renna til Heilsugæslunnar í Reykjavík til að auka þjónustu Geðteymis heimahjúkrunar og til að auka þjónustu á Heilsugæslustöð miðbæjar. Tólf milljónum króna verður varið til að standa undir tilraunverkefni um sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni. Um er að ræða þjónustu og þjálfun starfsmanna vegna meðferðarhópa á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Níu milljónir króna verða nýttar til að gera þjónustusamninga við heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni. Fimm komma fjórar milljónir króna renna til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til að efla þjónustu við börn með geðræn og sálfélagsleg vandamál, og þrjár komma sjö milljónir króna renna til Miðstöðvar heilsuverndar barna í þeim tilgangi að efla geðheilbrigðisþjónustu miðstöðvarinnar.