Skýrsla Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Vestfjarða
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 1/2005
Fréttatilkynning
Skýrsla Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Vestfjarða
Í dag verða kynntar á Ísafirði niðurstöður úr skýrslu Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Vestfjarða. Í skýrslunni kemur m.a. fram að það er niðurstaða Verkefnisstjórnar að Vestfirðir eigi sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar og aukinnar samkeppnishæfni, með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir. Það er jafnframt mat verkefnisstjórnar að fyrir árið 2020 verði íbúatala Vestfjarða komin í um 8300, sem samsvarar árlegri fjölgun íbúa um 0,5%.
Tillögum Verkefnisstjórnar er skipt í 3 flokka sem eru: Í fyrsta lagi er tillaga um uppbyggingu Ísafjarðarbæjar sem byggðakjarna fyrir Vestfirði. Í öðru lagi er lagt til að gerður verði Vaxtarsamningur Vestfjarða er nái frá 2005 til 2008 sem byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða. Samningurinn taki mið af sambærilegum aðferðum, sem best hafa tekist erlendis. Í þriðja lagi eru tillögur um beinar aðgerðir á einstaka sviðum.
Markmið tillagnanna er fyrst og fremst að auka hagvöxt svæðisins, fjölga atvinnutækifærum og treysta Ísafjörð sem byggðakjarna svo hann geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki sínu að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu á öllum Vestfjörðum.
Tillögur skýrslunnar eru um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á klasa á sviði sjávarútvegs og matvæla, mennta og rannsókna, menningar og ferðaþjónustu. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis þar sem lögð er áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins. Jafnframt taka tillögurnar mið af stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 – 2005.
Í árslok 2003 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir verkefnisstjórn til að gera tillögu um byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Í verkefnisstjórnina voru skipuð: Baldur Pétursson, iðnaðarráðuneyti, sem jafnframt gegndi formennsku, Kristján G. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ísafirði, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæ, Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði og Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri á Hólmavík. Starfsmenn verkefnisstjórnarinnar hafa verið þau, Aðalsteinn Óskarsson, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Hrefna Magnúsdóttir, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Guðmundur Guðmundsson, Byggðastofnun.
Hlutverk nefndarinnar var að leggja áherslu á verkefni sem líkleg eru til að skila árangri í styrkingu atvinnulífs og annarra búsetuskilyrða á Vestfjörðum og gera tillögur til ráðherra um aðgerðir í byggðamálum fyrir Vestfirði – þar sem lögð yrði áhersla á að styrkja Ísafjörð sem byggðakjarna á Vestfjörðum.
Iðnaðarráðherra mun yfirfara og meta tillögur verkefnisstjórnarinnar á næstunni og kalla eftir samstarfi við önnur ráðuneyti, bæjaryfirvöld á Ísafirði, sveitarfélög og atvinnulíf á svæðinu og aðra.
Reykjavík, 3. febrúar 2005