Skipan nefndar um stöðu fjölskyldunnar
Skipuð hefur verið nefnd sem styrkja á enn frekar stöðu íslensku fjölskyldunnar. Skipanin kemur í framhaldi af áramótaávarpi Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra þar sem hann vék að stöðu fjölskyldunnar m.a. með þessum orðum:
„Það er bjargföst trú mín að samheldin og ástrík fjölskylda sé kjarninn í hverju þjóðfélagi. Þann kjarna þarf að styrkja og treysta og við höfum komið til móts við breyttar kröfur með fæðingarorlofi fyrir báða foreldra, sem var mikið jafnréttismál. Að sama skapi höfum við lagt áherslu á að allir geti eignast sitt eigið húsnæði. En betur má ef duga skal. Ég hef því ákveðið að setja af stað vinnu við að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar.“
Á ríkisstjórnarfundi 11. janúar sl. var svo ákveðið að skipa nefnd í þessu augnamiði. Nefndina skipa Árni Sigfússon og Björk Vilhelmsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Björn B. Jónsson, tilnefndur af Ungmennafélagi Íslands, Elín Thorarensen, tilnefnd af Heimili og skóla, Fanný Gunnarsdóttir, tilnefnd af félagsmálaráðherra, Guðný Eydal, tilnefnd af menntamálaráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir, tilnefnd af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, séra Ólafur Jóhannsson, tilnefndur af dóms- og kirkjumálaráðherra, Ragnheiður E. Árnadóttir, tilnefnd af fjármálaráðherra, Stefán Snær Konráðsson, tilnefndur af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og séra Þorvaldur Karl Helgason, tilnefndur af biskupi Íslands.
Formaður nefndarinnar, skipaður af forsætisráðherra, er Björn Ingi Hrafnsson aðstoðarmaður forsætisráðherra og starfsmenn nefndarinnar eru einn fulltrúi forsætisráðuneytisins og Björg Kjartansdóttir, deildarsérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu.
Ekki eru tímamörk á störfum nefndarinnar, sem mun hefja störf á næstu dögum.
Reykjavík 4. febrúar 2005.