Norðurlönd móti stefnu til að auka áhrif almennings á pólitískar ákvarðanir
Fréttatilkynning frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytisins
Reykjavík 7. febrúar 2005
Norræn lýðræðisnefnd leggur til að skapaðar verði forsendur til þess að auka pólitíska virkni almennings á Norðurlöndum - ekki aðeins á kosningadaginn heldur allt kjörtímabilið, til dæmis með svokölluðum borgaralegum tillögum.*
Nefndin birtir niðurstöður sínar í skýrslunni „Demokrati i Norden” sem kynnt er á Norðurlöndum í dag. Þar er sjónum einkum beint að ástæðum minnkandi kosninga- og stjórnmálaþátttöku Norðurlandabúa, breyttri stöðu staðbundins lýðræðis og notkunar upplýsingatækni í lýðræðisstarfi.
Fjölmörgum tillögum og ábendingum er beint til norrænu ríkisstjórnanna, en megintillagan er sú að norrænu ríkin og sjálfstjórnarsvæðin móti eigin stefnu til að treysta lýðræðið. Gripið verði til aðgerða til að auka og jafna hlut borgaranna í lýðræðislegum ákvörðunum, hvort heldur er hjá sveitarfélögum eða í landsmálum.
Lagt er til að þekking á lýðræðinu verði efld m.a. með lýðræðismenntun fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa, og með reglulegum samanburðarrannsóknum og valda- og lýðræðisúttektum líkt og gerðar hafa verið í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Þannig sé unnt að meta stöðu lýðræðisins á hverjum tíma og greina hvað standi helst í vegi fyrir virkri þátttöku fólks í lýðræðisstarfi.
Lýðræðisnefndin vill einnig að sveitarfélög á Norðurlöndum nýti upplýsingatækni til að efla þátttökulýðræðið. Þróa beri rafrænt samráð, umræðukerfi og skoðanakannanir meðal almennings til að bæta forsendur fyrir pólitískum ákvörðunum. Þá vill nefndin að opinber stefna um upplýsingatækni taki til aðgerða er sporni gegn stafrænum gjám.
Að lokum er lagt til að stofnaður verði vinnuhópur sem fylgi eftir tilmælum nefndarinnar, miðli þekkingu, hvetji til lýðræðisrannsókna, samræmi tölfræði og safni bestu starfsaðferðum í lýðræðisástundun Norðurlandabúa.
Samhliða skýrslu lýðræðisnefndarinnar kemur út greinasafn 14 norrænna fræðimanna þar sem er fjallað um lýðræði á Norðurlöndum frá ýmsum sjónarhornum. Í safninu eru m.a. greinar um flóttann frá norrænum stjórnmálaflokkum og afleiðingar breyttrar verkskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Auður Styrkásdóttir er höfundur greinar um ójafnan hlut kynja í valdakerfum norrænna velferðarríkja.
Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur var formaður Lýðræðisnefndar sem skipuð var fulltrúum allra norrænu ríkjanna og sjálfstjórnarsvæðanna.
- Demokratiudvalgets rapport "Demokrati i Norden" (PDF - 1,17MB)
- Antologien "Demokrati og engagement. Paradokser i de nordiske demokratier" (PDF - 936Kb)
- Ræða Valgerðar Sverrisdóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda.
- Sjá einnig á vef Norrænu ráðherranefndarinnar: Demokrati og engagement. Paradokser i de nordiske demokratier.
_______________
* Medborgerforslag