Forsætisráðherra í fundaferð
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, heimsótti Ísafjörð í dag, en þetta er þriðji áfangastaður hans á nokkrum dögum í fundaferð um landið. Halldór var fyrir skemmstu á austurlandi þar sem hann fór í vinnustaðaheimsóknir á Reyðarfirði, Eskifirði og Norðfirði, hitti bæjarstjórn Fjarðarbyggðar, auk þess sem hann tók þátt í opnum stjórnmálafundi á Eskifirði. Á mánudag sótti forsætisráðherra svo Akureyri heim. Þar fór hann í Strýtu, landvinnslu Samherja, í höfuðstöðvar Norðlenska, fundaði með bæjarstjórn Akureyrar, skoðaði starfsemi Háskólans á Akureyri og loks Fjórðungssjúkrahúsið. Um kvöldið var svo fjölmennur stjórnmálafundur á Fiðlaranum.
Á dagskrá heimsóknar forsætisráðherra til Ísafjarðar í dag var heimsókn til Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, Fjórðungssjúkrahússins, Hraðfrystihússins Gunnvarar, 3X Stál og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða. Í kvöld mun forsætisráðherra svo taka þátt í opnum stjórnmálafundi í stjórnsýsluhúsinu.
Framundan eru enn fleiri ferðir forsætisráðherra, m.a. til Borgarbyggðar, Selfoss, Reykjanesbæjar og Hafnar.
Reykjavík, 9. febrúar 2005