Fundur utanríkisráðherra Norður-Atlantshafsbandalagsins í Brussel
Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, sat óformlegan fund utanríkisráðherra Norður-Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag. Þetta var fyrsti fundur utanríkisráðherranna með Condoleezzu Rice, nýskipuðum utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Á fundinum ræddu ráðherrar aðgerðir bandalagsins í Afganistan og fyrirhugaðar áætlanir um að NATO taki að sér aukin verkefni fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna á sviði friðargæslu í vesturhluta landsins, jafnframt því að tryggja öryggi í komandi þingkosningum. Á fundinum var rætt um ástand mála í Írak, sérstaklega um aðstoð við þjálfun íraskra öryggissveita af hálfu bandalagsins. Einnig var vikið að öðrum mikilvægum málum á vettvangi bandalagsins, meðal annars að áframhaldandi veru NATO á Balkanskaga og mikilvægi góðra samskipta við Miðjarðarhafsríkin.
Fundurinn var liður í að undirbúa sérstakan leiðtogafund bandalagsins sem haldinn verður 22. febrúar næstkomandi í tilefni af ferð George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, til Evrópu.