Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Skjálftavefsjá opnuð á vef Veðurstofunnar

Ragnar Stefánsson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Páll Halldórsson, Matthew J. Roberts, Magnús Jónsson við opnun skjálftavefsjár
PICT0053

Ávarp umhverfisráðherra vegna opnunar
Bráðaviðvörunarkerfis Veðurstofu Íslands

Góðir gestir,

Ísland er land, sem er enn í mótun. Á fáum stöðum á jörðinni gefst jafn gott tækifæri til þess að fylgjast með áhrifum náttúruaflanna. Þessi staðreynd gerir landið okkar heillandi og laðar þúsundir ferðamanna hingað á hverju ári. En kraftar náttúrunnar geta tortímt jafnt sem skapað. Við sjáum Íslandssöguna oft fyrir okkur sem baráttu þjóðar við óblíð náttúruöfl, sem hafa greitt einstökum byggðum þung högg og jafnvel ógnað búsetu í öllu landinu, eins og var á tímum Skaftárelda. Við erum nú betur í stakk búin en áður að búa með þessari síkviku náttúru, en því fer fjarri að ógnin sé ekki lengur fyrir hendi. Heimaeyjargosið 1973, Suðurlandsskjálftarnir sumarið 2000 og snjóflóðin mannskæðu á Vestfjörðum fyrir 10 árum eru dæmi um þá náttúruvá sem við Íslendingar búum við.

Margt hefur áunnist við að draga úr ógn af völdum náttúruvár á undanförnum árum og eru snjóflóðavarnir skýrasta dæmið um slíkt. Á síðastliðnum áratug hafa verið byggðir varnargarðar víða um land og komið á fót vöktunar- og viðbragðskerfi til að bregðast við snjóflóðahættu við þéttbýli. Ég tel að þetta kerfi hafi sannað gildi sitt í því hættuástandi sem kom upp víða á Vestfjörðum nú í janúarmánuði. Þar á Veðurstofan ekki síst þakkir skilið.

Því fer samt fjarri að við höfum komið á fullnægjandi kerfi til að bregðast við allri náttúruvá. Jarðskjálftar dynja yfir fyrirvaralaust. Eldgos gera stundum boð á undan sér með jarðskorpuhreyfingum og kvikuhlaupi, en þá er yfirleitt mjög skammur tími til stefnu. Allt sem getur stytt viðbragðstíma um klukkustundir, jafnvel mínútur, getur skipt máli.

Það bráðaviðvörunarkerfi, sem er formlega tekið í notkun í dag, hefur verið nokkur ár í þróun. Kerfið á að nýtast vísindamönnum til að fylgjast heildstætt með jarðhræringum og meta líkur á hamförum. Það á einnig að nýtast sem samskiptatæki við fjölmiðla og almenning og veita þeim aðgengilegar og auðskiljanlegar upplýsingar um þessi mál. Síðast en ekki síst á það að koma upplýsingum markvisst til réttra aðila, Almannavarna og annarra yfirvalda, til að hægt sé að bregðast við yfirvofandi vá á réttan og skjótan hátt.

Ekki þarf að hafa mörg orð um nauðsyn skjótra viðbragða og góðs undirbúnings fyrir náttúruhamfarir. Hinir skelfilegu atburðir við Indlandshaf þar sem hundruð þúsunda létu lífið eru okkur í fersku minni. Þar var ekkert viðvörunarkerfi til staðar, en slíkt kerfi hefði getað bjargað miklum fjölda fólks. Við búum sem betur fer við aðrar og betri aðstæður en löndin sem urðu fyrir barðinu á Súmötru-skjálftanum og flóðbylgjunni, en sagan sýnir að við erum langt í frá að vera óhult fyrir ógnum náttúruaflanna. Sennilega verður það ætíð svo, en það bráðaviðvörunarkerfi sem nú er verið að taka í notkun er skref í átt að auknu öryggi og áfram verður unnið að því að bæta það í framtíðinni.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka þeim fjölmörgu aðilum sem unnu að gerð og fjármögnun þessa bráðaviðvörunarkerfis. Megum við þurfa á því að halda sem sjaldnast, en megi það duga vel ef og þegar á reynir.

Takk fyrir



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta