Ný skýrsla OECD um íslensk efnahagsmál
Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 2/2005
Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti í dag nýja skýrslu um íslensk efnahagsmál. Hægt er að nálgast samandregnar niðurstöður skýrslunnar á vef OECD.
Mat OECD á framvindu efnahagsmála og hagstjórn hér á landi er jákvætt. Mikil aðlögunarhæfni íslenska hagkerfisins er einkum rakin til efnahagsstefnu stjórnvalda og umfangsmikilla skipulagsbreytinga á flestum sviðum efnahagslífsins frá því í byrjun tíunda áratugsins. Hagvöxtur á Íslandi hefur verið meiri en í flestum öðrum ríkjum OECD undanfarinn áratug og tekjur á mann með þeim hæstu í heiminum.
Að mati OECD er meginviðfangsefni hagstjórnar að treysta stöðugleika efnahagslífsins og koma í veg fyrir að ójafnvægi geti myndast á ný með auknum verðbólguþrýstingi og viðskiptahalla vegna stóriðjuframkvæmdanna. Stjórnvöld eru því hvött til að herða aðgerðir til að sporna við þenslu. Sérstaklega er talið mikilvægt að auka aðhald í peningamálum með frekari vaxtahækkunum á þessu ári. Einnig telur stofnunin að stefna beri að meiri afgangi á fjárlögum en nú er gert, meðal annars með auknu útgjaldaaðhaldi.
Fjallað er ítarlega um mikilvægi áframhaldandi skipulagsbreytinga til að efla forsendur fyrir stöðugleika efnahagslífsins. Varðandi einstök skipulagsmál er bent á nauðsyn þess að skoða framtíðar virkjunaráform í heildstæðu samhengi, m.a. með tilliti til efnahagslegra áhrifa og umhverfissjónarmiða. Ennfremur er bent á mikilvægi þess að bæta menntun þjóðarinnar til að styrkja stöðu innlendra hátæknigreina á alþjóðamarkaði. Þá bendir stofnunin á nauðsyn þess að tryggja greiðan aðgang að erlendu vinnuafli en það hjálpi til við að draga úr spennu í uppsveiflunni.
Samkeppnismálin fá að þessu sinni sérstaka umfjöllun, en breytingar á samkeppnislögum og einkavæðing ríkisfyrirtækja eru taldar hafa ýtt undir framleiðnivöxt undanfarinn áratug. Samkeppniseftirlit þykir almennt í góðum farvegi hér á landi en þó er tekið vel í áform um að styrkja það enn frekar. Samkeppni sé enn ábótavant í nokkrum geirum en þeirra á meðal er raforkumarkaðurinn og fastlínukerfi fjarskiptamarkaðar. Ítrekað er að nauðsynlegt sé að ljúka við sölu Símans sem allra fyrst. Að lokum er mælt með að frekar verði dregið úr opinberum framleiðslustyrkjum við landbúnað og hömlum á eignarhaldi erlendra aðila í sjávarútvegi.
Fjármálaráðuneytinu, 15. febrúar 2005