Kýótó - bókunin tekur gildi
Kýótó-bókunin
- Ávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra
Í dag, 16. febrúar 2005, tekur Kýótó-bókunin við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna gildi. Þetta er merkisdagur í alþjóðlegri samvinnu í umhverfismálum, því bókunin er einhver veigamesta alþjóðasamþykkt sem gerð hefur verið á því sviði.
Þessum fundi hér í dag er ætlað tvenns konar hlutverk. Fyrst verða flutt nokkur stutt erindi um Kýótó-bókunina, hvað í henni felst, hverjar eru skuldbindingar Íslands og hvað stjórnvöld eru að gera til að uppfylla þær skuldbindingar. Síðan verða pallborðsumræður, þar sem væntanlega bera á góma mörg álitaefni varðandi framkvæmd bókunarinnar og stefnu í loftslagsmálum. Það er von mín að þessi fundur verði í senn fræðandi og til þess fallinn að vekja upp umræður um stefnu Íslands og aðgerðir.
Umræðan um loftslagsmál hér á landi er oft heit og pólitísk, en við megum ekki missa sjónar á ákveðnum grundvallaratriðum í sambandi við þau. Vandinn er við er að etja er vaxandi styrkur svonefndra gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og stærsti hluti vandans er vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Lykillinn að lausninni þar felst ekki síst í aukinni nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Við verðum að nýta hreina orku á borð við vatnsorku og jarðvarma í stórauknum mæli á heimsvísu í stað kola og olíu. Það er þessi staðreynd sem liggur til grundvallar hinu svokallaða íslenska ákvæði, sem heimilar nokkra viðbótarlosun hér á landi frá iðnaðarferlum sem nýta hreina endurnýjanlega orkugjafa landsins. Í því felst hnattrænn ávinningur fyrir loftslagið og ríki heims hafa viðurkennt það.
Við þurfum að fara með ítrustu gát varðandi virkjun vatnsfalla og jarðvarma vegna náttúruverndarsjónarmiða. Sumar virkjanahugmyndir koma einfaldlega ekki til greina af þeim ástæðum - en það breytir því ekki að nýting slíkra orkulinda er jákvæð frá sjónarhóli Loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar. Það er trú mín að þar höfum við Íslendingar mikið fram að færa á alþjóðavettvangi. Við miðlum nú þegar af reynslu okkar og þekkingu með starfi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og öflug íslensk orkuvinnslufyrirtæki, sem eru farin að láta til sín taka erlendis. Við Íslendingar eigum að vera í fararbroddi þeirra þjóða sem tala fyrir aukinni notkun endurnýjanlegrar orku og bættrar samkeppnisstöðu hennar á alþjóðavísu gagnvart jarðefnaeldsneyti. Við eigum líka að fylgja slíkum málflutningi eftir með athöfnum, ekki síst með því að aðstoða við virkjun jarðhita í þróunarríkjunum.
Allt bendir til þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Kýótó-bókuninni án þess að nýta svonefnt sveigjanleikaákvæði bókunarinnar á fyrsta skuldbindingartímabilinu árin 2008-2012. Það er stefna umhverfisráðherra og ríkisstjórnarinnar að tryggja að það gangi eftir, en við eigum að setja markið hærra. Gripið hefur verið til ýmissa aðgerða á grundvelli stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, en endurskoðun þeirrar stefnumörkunar er nýlega hafin. Hún á að miða að því að leita sem flestra leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu á sem hagkvæmastan hátt. Í stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun er það markmið sett að notkun jarðefnaeldsneytis verði óveruleg innan nokkurra áratuga. Við höfum sett markið hátt og þurfum að vinna að því skref fyrir skref.
Nýlegar niðurstöður vísindamanna, meðal annars í Skýrslu um loftslagsbreytingar á Norðurslóðum sem kynnt var fyrir ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Reykjavík síðastliðið haust, sýna okkur að loftslagsbreytingar eru staðreynd og þar kemur fram að afleiðingar þeirra muni koma fram af vaxandi þunga í framtíðinni. Við höfum því ærið verk að vinna. Við Íslendingar höfum alla burði til þess að vera í fararbroddi ríkja sem vinna að framgangi endurnýjanlegrar orku og vinna gegn skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga. Það er von mín að þessi fundur og þessi dagur verði til þess að kveikja umræður og hugmyndir sem koma okkur að gagni við það verk.
Takk fyrir,