Svarbréf frá forstjóra Iceland til forsætisráðherra
Halldóri Ásgrímssyni, forsætisráðherra, hefur borist svarbréf frá Malcolm Walker, forstjóra Iceland Foods verslunarkeðjunnar í Bretlandi, vegna umsóknar fyrirtækisins um einkaleyfi á vörumerkinu Iceland í löndum Evrópusambandsins.
Í bréfi forsætisráðherra til fyrirtækisins sem sent var í síðustu viku, var óskað eftir því að breska verslunarkeðjan endurskoðaði umsókn sína og í bréfi forstjóra fyrirtækisins er því lýst yfir að á stjórnarfundi þriðjudaginn 15. febrúar hafi beiðni forsætisráðherra verið tekin fyrir og ákveðið að falla frá umsókn um einkaleyfi á notkun nafnsins í öllum löndum utan Bretlands.
Í bréfi forstjóra Iceland segir m.a.: „Þegar ég stofnaði Iceland árið 1970 var þetta aðeins ein lítil verslun í Norður Englandi með frosnar matvörur. Konunni minni datt í hug að gefa henni nafnið Ice Land. Aldrei hvarflaði að okkur að það myndi verða að því stórfyrirtæki sem það er í dag, hvað þá að í notkun okkar á nafni þessu gætu falist vandræði fyrir landið Ísland.“
Þá segir ennfremur að forráðamenn verslunarkeðjunnar vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vinna með íslenskum stjórnvöldum að því að koma í veg fyrir að nafnaruglingur þess valdi vandræðum í framtíðinni. Þess vegna muni fyrirtækið afturkalla umsókn sína í öllum mörkuðum utan Bretlands og bjóði fram aðstoð sína og samvinnu við fulltrúa íslenskra stjórnvalda.
Í bréfinu kemur Malcolm Walker ennfremur á framfæri boði til Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra, um heimsókn til höfuðstöðva fyrirtækisins í Deeside, fyrir hönd Pálma Haraldssonar stjórnarformanns Iceland.
Í Reykjavík, 15. febrúar 2005.