Ísland og norðurslóðir
Ísland og norðurslóðir
- Tækifæri í breytilegu umhverfi alþjóðasamstarfs og náttúrufars -
Ráðstefna á Grand Hotel, 25. febrúar 2005
Þann 25. febrúar 2005 verður efnt til ráðstefnu í Reykjavík undir yfirskriftinni: Ísland og norðurslóðir: Tækifæri í breytilegu umhverfi alþjóðasamstarfs og náttúrufars.
Ráðstefnan er haldin í ljósi þeirra miklu umskipta sem átt hafa sér stað á norðurslóðum á síðustu fimmtán árum. Áður hafði hernaðarleg togstreita kalda stríðsins sett samstarfi ríkja á svæðinu þröngar skorður, en hin seinni ár hafa ríki, héruð og sjálfstæðar stofnanir í vaxandi mæli nýtt sér hin nýju færi sem opnast hafa, ekki síst á sviði rannsókna, umhverfismála, efnahagssamstarfs og menningar.
Ísland hefur mikilvægra hagsmuna að gæta í norðurslóðasamstarfi. Á tímabilinu 2002-2004 gegndi Ísland formennsku í Norðurskautsráðinu og hafði þá ýmis tækifæri til móta störf ríkjanna á svæðinu að sameiginlegum málefnum. Ísland hafði m.a. frumkvæði að samantekt yfirgripsmikillar skýrslu um mannlíf á norðurslóðum, mörkuð var heildarstefna um málefni hafins á heimskautssvæðinu og gefin var út umfangsmikil skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Ennfremur hefur verið lögð fram skýrsla starfshóps utanríkisráðuneytisins um tækifæri fyrir Ísland í tengslum við siglingar á norðurslóðum.
Markmið ráðstefnunnar er að leggja grunn að umræðu um þau viðfangsefni sem breytilegt umhverfi alþjóðsamstarfs og náttúrufars felur í sér fyrir Íslendinga bæði innanlands og á erlendum vettvangi, s.s. við gerð rannsóknaráætlunar á norðurslóðum og undirbúning alþjóðaárs heimskautasvæðanna 2007-2008.
Fyrirlesarar á ráðstefnunni koma víða að úr samfélaginu og fjalla um margvísleg málefni, s.s. áhrif umhverfisbreytinga á vöxt og dreifingu fiskistofa, vatnabúskap, orkumál, siglingar, dýralíf, landnýtingu, mannlíf, byggðaþróun og rannsóknir, svo eitthvað sé nefnt.
Utanríkisráðuneytið hefur haft forystu um ráðstefnuna í nánu samstarfi við umhverfisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, samgönguráðuneyti og RANNÍS, en allir þessir aðilar styrkja ráðstefnuna.
Ráðstefnan, sem er öllum opin, fer fram á Grand Hotel og hefst kl. 9:00.
Meðfylgjandi er dagskrá ráðstefnunnar.
Skráning er í síma 545 9940 eða með tölvupósti: [email protected]