Hoppa yfir valmynd
21. febrúar 2005 Matvælaráðuneytið

Nefnd um starfsumhverfi skilar af sér áfangaskýrslu

Komið verði á samráðsnefnd eftirlitskyldra aðila í sjávarútvegi

Nefnd sem skipuð var af sjávarútvegsráðherra og falið var að gera úttekt á starfsumhverfi sjávarútvegsins skilar af sér áfangaskýrslu og fyrstu tillögum.

 

Nefndin hefur verið að störfum frá því í nóvember á síðasta ári. Í nefndinni sitja Vilhjálmur Egilsson, Guðrún Lárusdóttir, Guðmundur Smári Guðmundsson, Friðrik J. Arngrímsson og Örn Pálsson. Hefur nefndin boðað gesti á fundi sína. Er nefndinni falið að skoða hvort hægt sé að minnka álögur, einfalda og samhæfa ýmsa þjónustu og eftirlit sem ríkið innir af hendi í þeim tilgangi sérstaklega að lækka rekstrarkostnað og gera kerfið skilvirkara.

Í fyrstu áfangaskýrslu nefndarinnar eru lagðar fram tillögur er varða eftirlit með sjávarútvegi, einkum því sem snýr að eftirliti með gæðum. Eftir að hafa farið allýtarlega yfir fyrirkomulag og framkvæmd eftirlitsins, hvað varðar umræddan þátt í starfsumhverfi sjávarútvegsins, eru meginniðurstöður nefndarinnar þær að áfram eigi að byggja á því skoðunarstofukerfi sem nú er við lýði, þróa það frekar, bæta og skoðað verði hvernig skoðunarstofur geti tekið við auknum verkefnum við framkvæmd eftirlitsins. Bendir nefndin á að auk frekara samstarfs, samvinnu og trausts á milli Fiskistofu og skoðunarstofa þurfi þessir aðilar að skerpa á hlutverki sínu, framkvæmd og ábyrgð við eftirlitið.

Telur nefndin að ástand gæðamála sé í góðu horfi í íslenskum sjávarútvegi. Á því séu þó einstaka undantekningar sem þurfi að taka á með ákveðnari hætti. Leggur nefndin áherslur á að mikilvægt sé að ástand gæðamála sé gott og eftirfylgni með því sé skilvirkt.

Nefndin telur að bæta þurfi og auka aðkomu greinarinnar sjálfrar að framkvæmd og þróun eftirlitsins. Setur nefndin fyrirvara við enn aukið umfang opinbers eftirlits og þeim aukna kostnaði sem því fylgir og telur mikilvægt að leitað verði frekari leiða til að draga úr kostnaði og umfangi eftirlitsins.

Á grunni þeirrar umfjöllunar og skoðunar sem nefndin hefur framkvæmt hefur hún lagt fram eftirfarandi tíu tillögur og ábendingar:

Samráðsnefnd

Nefndin leggur til að komið verði á fót samráðsnefnd eftirlitskyldra aðila í sjávarútvegi og fjalli hún bæði um eftirlit með gæðamálum og veiðieftirliti. Nefndin getur starfað í einu eða tvennu lagi (gæðamál/veiðieftirlit) eftir því sem ástæða er til og metið er árangursríkara. Lagt er til að aðilar að samráðsnefndinni verði:

Fiskistofa, einkareknar skoðunarstofur, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Samtök fiskvinnslustöðva, Samtök fiskmarkaða, Samtök fiskvinnslu án útgerðar, Samtök fiskeldisstöðva, Farmanna og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasamband Íslands, Vélstjórafélag Íslands og Starfsgreinasambandið.

 

Markmiðið með stofnun samráðsnefndarinnar er að skapa vettvang til gagnkvæmra skoðanaskipta og umræðu um starfshætti og rekstur eftirlitsins, umræðu og kynningar á nýjungum og breytingum. Jafnframt geti nefndin komið ábendingum og tilmælum á framfæri við gerð og breytingar á regluverki eftirlitsins. Gert er ráð fyrir að samráðsnefndin hittist 2-3 á ári (febrúar/september) og skili af sér árlega, stuttri skýrslu þar sem tekið er saman starf nefndarinnar, þ.e. helstu mál sem til umfjöllunar hafa verið, álit hennar, niðurstöður eða tilmæli, eftir því sem við á.

Lagt er til að sjávarútvegsráðuneytið hafi forystu um að koma samráðsnefndinni á legg. Ráðuneytið beri ábyrgð á rekstri nefndarinnar þ.e. sjái um fundi, útgáfu ársskýrslu og skipuleggi starf hennar í samráði við aðila að henni. Ekki er talið að stofnun og rekstur samráðsnefndarinnar kalli á sérstaka lagabreytingu.

 

Flokkun vinnslustöðva (A-D)

Nefndin leggur til að vinnslustöðvar (vinnsluleyfishafar) verði flokkaðar m.t.t. stöðu gæðamála A-D.  Við slíka flokkun verði m.a. tekið tillit til innra fyrirkomulags gæðaeftirlits, eðli og fjölda athugasemda skoðunarstofa og Fiskistofu sem og samstarfs við erlendar skoðunarstofur/vottunarfyrirtæki. Þær vinnslustöðvar sem flokkast vel (A,B) njóti þess bæði með ástandsviðurkenningu og færri opinberum skoðunum.

 

Skoðanir á smábátum

Nefndin leggur til, byggt á afstöðu Landssambands smábátaeigenda, að felldur verði niður skoðunarstofuþáttur með eftirliti á smábátum. Fiskistofa annist þennan þátt í skoðunum smábáta í stað skoðunarstofa.

 

Viðverutími eftirlitsmanna um borð í vinnsluskipum

Nefndin leggur til að leitað verði frekari leiða til að stytta viðverutíma eftirlitsmanna  um borð í vinnsluskipum (víkja frá heil-túrs fyrirkomulagi). Lagt er til að við skipulag eftirlitsins verði leitast við að færa eftirlitsmenn á milli skipa á sömu slóð einsog aðstæður leyfa á hverjum tíma og stað.

 

Útgáfa veiðileyfa

Nefndin leggur til að útgáfa veiðileyfa verði almennt ekki tímabundin til eins árs heldur sé hún ótímabundin. Gildi þetta jafnt um útgáfu atvinnuleyfa og sérveiðiheimilda. Forsenda fyrstu útgáfu veiðileyfis er að skip/bátur hafi gilt haffærnisskírteini.

 

Vinnsluleyfi

Nefndin leggur áherslu á að Fiskistofa og skoðunarstofur vinni saman að því og skoði með hvaða hæti má betur auka trúverðugleika vinnsluleyfa. Tekið verði ákveðnar á þeim aðilum (vinnsluleyfi fellt úr gildi) sem ekki fullnægja lágmarkskröfum og ekki verða við tilmælum skoðunarstofa og Fiskistofu um úrbætur.

 

Form tilkynninga Fiskistofu

Nefndin leggur til að gerð verði breyting á 14. gr laga nr. 57/1996 þar sem segir að Fiskistofa skuli tilkynna útgerð og skipstjóra með símskeyti að skip hafi farið fram úr aflaheimildum og sé svipt leyfi til veiða í atvinnuskyni. Leggur nefndin til að lagagreininni verði breytt þannig að Fiskistofu og útgerðum verði boðið upp á annað sannanlegt fyrirkomulag við þessar tilkynningar t.a.m. með tölvupósti, faxi eða símtölum. Jafnframt leggur nefndin til að kostnaður við sendingu símskeyta falli alfarið á viðkomandi útgerð.

 

Millifærsla á aflaheimildum

Nefndin hvetur Fiskistofu til að flýta fyrirætlunum sem gera útgerðum kleift að annast sjálfar rafræna millifærslu á aflaheimildum milli eigin skipa og til annarra útgerða.

 

Námskeið Fiskistofu ætlað skoðunarstofum

Nefndin hvetur Fiskistofu og skoðunarstofur til samstarfs og samvinnu við námskeiðahald sem ætlað er að bæta framkvæmd og áreiðanleika opinbers eftirlits s.s. með því að tryggja hæfni starfsmanna skoðunarstofa.. Leggur nefndin til að Fiskistofa komi á sérstöku námskeiði ætlað skipaeftirlitsmönnum skoðunarstofa þannig að þeir fullnægi kröfum Fiskistofu og geti þannig jafnframt sinnt hreinlætisskoðunum í skipum og bátum.

 

Leiðbeiningahlutverk Fiskistofu

Beinir nefndin þeim tilmælum til Fiskistofu að hún taki til athugunar og leiti leiða við að breyta framsetningu og inntaki í bréfum sínum í kjölfar skoðana og eftirlits þannig að lögð sé ríkari áhersla á leiðbeiningahlutverk Fiskistofu og jafnframt að inntak þeirra taki frekara mið af eðli athugasemda/brota (jákvæðari tónn). Skoðað verði jafnframt fyrirkomulag framkvæmdar eftirlitsins, þ.e. skoðunarhandbók, skoðunaratriði og alvarleiki athugasemda.

 

Skýrsla

 

Sjávarútvegsráðuneytið, 21 febrúar 2005

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta