Leiðtogafundur Norður-Atlantshafsbandalagsins í Brussel 2005
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sat í dag leiðtogafund Norður - Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Fundurinn var haldinn í tilefni af fyrstu ferð George W. Bush forseta Bandaríkjanna til Evrópu eftir endurkjör hans. Á fundinum ítrekuðu leiðtogar bandalagsins mikilvægi NATO og þess að viðhalda sterkum tengslum milli Bandaríkjanna og Evrópu.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi Atlantshafstengslanna og að bandalagið væri nú sem fyrr mikilvægasti vettvangur samráðs og samstarfs um öryggis- og varnarmál milli Norður-Ameríku og Evrópu. Sérstaklega væri nauðsynlegt að virkja vettvang bandalagsins til pólitísks samráðs um málefni líðandi stundar og nefndi friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs sem dæmi.
Á fundinum ræddu leiðtogarnir jafnframt um aðgerðir bandalagsins í Afganistan, Írak og Kosovo, auk skoðanaskipta þess við löndin fyrir botni Miðjarðarhafs.
Nánari upplýsingar um leiðtogafund NATO er að finna á vefsíðu Atlantshafsbandalagsins (www.nato.int ), þar á meðal yfirlýsingu fundarins.
Í Reykjavík, 22. febrúar 2005.