Hindrunum fækkað í akstri leigubifreiða til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Til þessa hefur leigubílstjórum aðeins verið heimilt að aka með farþega aðra leiðina og hafa þeir því orðið að snúa til baka án farþega. Með fyrirhugaðri breytingu sameinast þessi svæði í eitt aksturssvæði og er bifreiðastjórum beggja svæðanna um leið heimilt að aka með farþega báðar leiðir.
Í rökstuðningi fyrir þessum breytingum kemur fram að með breyttum og bættum samgöngum, m.a. breikkun Reykjanesbrautarinnar og mikilli fjölgun farþega um Leifsstöð, og með hliðsjón af ört vaxandi ferðamannastraumi til og frá landinu, þyki eðlilegt að leggja af núverandi skiptingu akstursleyfa í tvö takmörkunarsvæði, sem er komin mjög til ára sinna. Breyta verði innbyggðu óhagræði til þess að tryggja bætta þjónustu. Það á ekki síst við þar sem akstur leigubifreiða er nátengdur ferðaþjónustunni sem er önnur stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar í harðri alþjóðlegri samkeppni. Gera má ráð fyrir að með þessari hagræðingu verði til samkeppni í leigubílaakstri á þessu svæði og notkun leigubifreiða aukast.
Kynning á fyrirhugðum breytingum var send til tuttugu og þriggja umsagnaraðila; sveitarstjórna, bifreiðastjórafélaga, bifreiðastöðva, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samkeppnisstofnunar o.fl. Svör bárust frá 16 aðilum og var þorri þeirra jákvæður í garð breytinganna.
Breytingar þessar taka gildi 1. október næstkomandi.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra:
"Ég tel að þetta sé bæði nauðsynleg og löngu tímabær breyting sem muni auka hlutdeild leigubifreiða í farþegaflutningum á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Þetta er jafnramt þýðingarmikið skref í átt til bættrar þjónustu og aukinnar samkeppnishæfni leigubifreiðaaksturs sem mun skipta atvinnugreinina miklu máli á komandi árum. Þess má geta að viðræður hafa átt sér stað á milli samgönguráðuneytis og fulltrúa Leifsstöðvar um að Leifsstöð bæti aðstöðu leigubíla við flugstöðina".
Nánari upplýsingar veitir Bergþór Ólason, aðstoðarmaður samgönguráðherra, s. 545-8200 og 894-6677.