Framkvæmd samræmdra stúdentsprófa
Til skólameistara framhaldsskóla
Vegna samræmdra stúdentsprófa 2.- 4. maí nk. vill menntamálaráðuneytið koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum til framhaldsskóla:
Samræmd stúdentspróf eru hluti af skilgreindum námslokum til stúdentsprófs, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 196/2003 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum. Skólameistara er þar af leiðandi óheimilt að undirrita stúdentsprófsskírteini nema nemandinn hafi þreytt tvö samræmd stúdentspróf. Koma þarf fram á skírteini nemandans að hann hafi lokið tilskildum tveimur samræmdum prófum. Ekki er gert ráð fyrir undantekningum eða frávikum frá þessu, sbr. fyrrgreinda reglugerð.
Námsmatsstofnun sem sér um framkvæmd samræmdra stúdentsprófa mun ekki geta skilað einkunnum úr samræmdum prófum fyrr en 24 dögum eftir að prófin eru haldin, en sendir framhaldsskólum fljótlega eftir prófin upplýsingar um hvaða nemendur hafi þreytt prófin. Þegar niðurstöður prófanna liggja fyrir sendir Námsmatsstofnun hverjum nemanda sem þreytt hefur samræmt próf skírteini með upplýsingum um árangur og sömu upplýsingar til framhaldsskóla gegnum INNU.
Ráðuneytið vinnur nú að því í samráði við stjórn INNU að ganga frá því hvernig upplýsingar um samræmd stúdentspróf birtast á stúdentsprófsskírteinum. Verður niðurstaða þeirrar vinnu kynnt framhaldsskólum eins fljótt hún liggur fyrir.