Ísland og norðurslóðir
Góðir gestir,
Ég vil í byrjun bjóða ykkur öll velkomin og þakka ykkur fyrir þann áhuga sem þið sýnið ráðstefnu okkar um Ísland og norðurslóðir með þátttöku ykkar hér í dag.
Hugtakið “norðurslóðir” hefur verið þekkt síðan löngu fyrir tíma Íslandsbyggðar og á sér raunar djúpar rætur í vestrænni menningu. Þegar forn-Grikkir virtu fyrir sér stjörnuhimininn í norðri, áttuðu þær sig á að draga mátti hring í gegnum eitt stjörnumerkjanna, Stóra-björninn, til að afmarka þann hluta festingar himinhvolfsins sem þeim var sýnilegur árið um kring. Síðar fluttist hið gríska heiti þessa hluta stjörnuhiminsins yfir á jarðsvæðið undir því; norðrið varð svæði Stóra-bjarnarins, arktos.
Þótt Íslendingar hafi átt heimkynni sín undir Stóra-birni í meira en þúsund ár, er ekki þar með sagt að þeir hafi talið sig beinlínis til “arktískra” þjóða. Orðið “norðurslóðir” fyrirfinnst ekki í endurbættri útgáfu Íslenskrar orðabókar, sem út kom árið 2002. Aftur á móti vefst það fyrir fæstum Íslendingum að þeir eru norræn þjóð og hluti af samfélagi Norðurlanda.
Ýmsar skýringar kunna að vera á því að Íslendingar hafa gefið norðurslóðum lítinn gaum í nútímanum. Ein er sú, að þótt íslenskir landkönnuðir ættu sjálfir stóran þátt í að útvíkka sjónhring norðursins þegar fyrir þúsund árum - og afkomendur þeirra eins og Vilhjálmur Stefánsson hafi haldið þeim tilraunum áfram allt fram á tuttugustu öld - hefur sú ímynd norðurhjarans orðið lífsseig að hann væri öðru fremur útkjálki frumstæðra lifnaðarhátta, umlukinn myrkri og ís.
Hin síðari ár hefur þetta kuldalega viðhorf til grannsvæðanna í norðri smám saman verið á undanhaldi. Endalok kalda stríðsins fyrir meira en hálfum öðrum áratug leystu krafta úr læðingi sem nýst hafa til samstarfs á fjölmörgum sviðum þar sem áður ríkti fálæti og tortryggni. Ásókn í hinar ríku auðlindir norðursins, hvort heldur fiskistofna eða jarðefnaeldsneyti, hefur aukist hröðum skrefum. Stofnað hefur verið í fyrsta sinn til samstarfs ríkja á öllu svæðinu kringum Norðurskautið, þar sem Ísland hefur nýlega gegnt forystu með formennsku sinni í Norðurskautsráðinu.
Á formennskutímabilinu, sem lauk í nóvember síðastliðnum, hafði Ísland einstakt tækifæri til að setja mark sitt á starf aðildarríkjanna átta, Norðurlandanna, Rússlands og ríkja Norður-Ameríku, að sameiginlegum málefnum. Ísland hafði m.a. forystu að samantekt fyrstu samanburðarskýrslu sem tekin hefur verið saman um mannlíf á norðurslóðum, lögð var fram yfirgripsmikil skýrsla um loftslagsbreytingar og mótuð heildarstefna í málefnum hafsins. Nýlega birtist einnig skýrsla faghóps stjórnarráðsins um tækifæri tengd siglingum á norðurslóðum.
Enginn vafi leikur á að Ísland, eina aðildarríkiríki Norðurskautsráðsins sem á allt sitt landsvæði á norðurslóðum, hefur hagsmuna að gæta í þessu vaxandi samstarfi ríkjanna á svæðinu. Við höfum augljósan ávinning af því að standa vörð um hið viðkvæma vistkerfi norðursins, jafnframt því að nýta auðlindir þess. Tækifæri á sviði siglinga, ferðaþjónustu eða orkunýtingar, svo tekin séu dæmi, hjálpa okkur einnig til að búa í haginn fyrir framtíðina. Á sama hátt stuðlar virk þátttaka í vísinda- og rannsóknastarfi að bættum skilningi á hinu breytilega náttúrufari okkar heimshluta.
Sú ráðstefna sem við höldum hér í dag er hugsuð sem framlag til aukins skilnings okkar á stöðu Íslands í norðurslóðasamhengi. Eins og sjá má af langri og metnaðarfullri dagskrá, verða leiddir fram margir okkar helstu sérfræðingar sem lagt geta af mörkum í því efni. Ég vil nota tækifærið og færa þeim öllum þakkir fyrirfram, en einnig fundarstjórunum tveimur, Gísla Pálssyni og Ragnhildi Hjaltadóttur, og þeim Guðrúnu Péturdóttur og Þórhalli Jósefssyni, sem boðist hafa til að draga saman helstu atriðin í lokin.
Ég vil að lokum láta í ljósi von um að í kjölfar þeirra forvitnilegu erinda sem hér verða flutt verði ekki aðeins orðabókarhöfundar, heldur einnig við hin, einhverju nær um þýðingu hinna himinbornu norðurslóða fyrir Íslendinga og tækifærin sem þar kunna að vera fólgin. Mér er það því sönn ánægja að segja þessa ráðstefnu setta.