Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir árið 2005
Alls hafa 86 af 101 sveitarfélagi skilað fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 til ráðuneytisins en skv. sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998, með síðari breytingum, skal sveitarstjórn ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlunar næsta árs og senda ráðuneytinu fyrir lok desembermánaðar. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2005, skoraði ráðuneytið á þau sveitarfélög sem ekki höfðu sent ráðuneytinu fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 að gera slíkt fyrir 1. mars.
Ráðuneytið hefur nú, með bréfi dags. 10. mars 2005, sent ítrekun til þeirra sveitarfélaga sem enn hafa ekki lokið afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2005 og skilað eintaki af henni til ráðuneytisins. Hafa viðkomandi sveitarstjórnir frest til 21. mars 2005 til að bæta úr þessari vanrækslu en að þeim tíma liðnum verður beitt heimild í 3. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga til að stöðva greiðslur til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Gildir sú stöðvun þar til fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 berst ráðuneytinu.
Líkt og fram kemur í 2. mgr. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 skal fjárhagsáætlun vera meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarsjóðs og stofnana sveitarfélagsins á viðkomandi reikningsári. Jafnframt er sveitarfélagi óheimilt, skv. 3. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, að stofna til útgjalda sem ekki eru lögbundin, samningsbundin eða leiða af fyrri samþykkt sveitarstjórnar nema til komi samþykki sveitarstjórnar. Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum verður það að teljast algjörlega óviðunandi ef fjárhagsáætlun með rekstrar- og framkvæmdaáætlun fyrir árið 2005 er ekki afgreidd í sveitarstjórn strax við upphaf rekstrarárs.
Ráðuneytið vekur athygli á því að á vefsíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga er að finna frétt um samantekt um rekstrarhorfur sveitarfélaga á árinu 2005 á grundvelli upplýsinga úr fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir árið 2005.
Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga 2005