Hoppa yfir valmynd
15. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum

Félagsmálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum, sem felur í sér að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga fari fram laugardaginn 8. október 2005.

Samkvæmt tillögu sameiningarnefndar, sem félagsmálaráðherra skipaði haustið 2003 til að gera tillögur um sameiningu sveitarfélaga, og að höfðu samráði við sveitarstjórnarmenn víða um land er í frumvarpinu lagt til að atkvæðagreiðsla um sameiningartillögur fari fram laugardaginn 8. október 2005 í stað 23. apríl n.k. Ástæðan fyrir því að færa þarf kjördag fram til haustsins er tvíþætt. Annars vegar tók lengri tíma en gert var ráð fyrir að ná samkomulagi í tekjustofnanefnd um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og því hefur dregist að sameiningarnefnd kynni endanlegar tillögur sínar. Er nú ljóst að ekki er nægur tími til stefnu til að tillögurnar geti hlotið nægilega kynningu og umfjöllun í viðkomandi sveitarfélögum fyrir kjördag. Hins vegar er ástæðan sú að undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar er kominn misjafnlega vel á veg á einstökum svæðum.

Þótt í frumvarpinu sé gert ráð fyrir því sem meginreglu að atkvæðagreiðsla fari fram þann 8. október nk. er lagt til að samstarfsnefnd á hverju svæði verði heimilt að láta atkvæðagreiðsluna fara fram fyrr ef það er mat nefndarinnar að sameiningartillaga muni hljóta næga kynningu meðal íbúa fyrir kjördaginn. Skal samstarfsnefndin kynna félagsmálaráðuneytinu þá ákvörðun sína svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 20. maí 2005 til að ráðuneytið geti gert ráðstafanir til að láta utankjörfundaratkvæðagreiðslu hefjast tímanlega fyrir kjördag. Gert er ráð fyrir því að slík ákvörðun þurfi samþykki aukins meiri hluta nefndarmanna og að samráð verði haft við ráðuneytið áður en tillaga þess efnis verði borin upp til atkvæða.

Kjördagur sá sem lagður er til í frumvarpinu er valinn með hliðsjón af því að upphaflegar tillögur sameiningarnefndar voru kynntar í lok september 2004 og síðan þá hefur átt sér stað mikil umræða um tillögurnar. Verður að ætla að sveitarstjórnum sé með þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpinu veittur nægur tími til að kynna tillögur nefndarinnar og undirbúa atkvæðagreiðslu um þær.

Í frumvarpinu er lagt til að Alþingi heimili eina undantekningu frá framangreindri frestun, þ.e.a.s. að atkvæðagreiðsla um sameiningu Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps, Kolbeinsstaðahrepps og Skorradalshrepps fari fram þann dag sem samstarfsnefnd kjörin af sveitarstjórnum þessara sveitarfélaga hefur þegar ákveðið. Markvisst hefur verið unnið að undirbúningi sameiningar þessara sveitarfélaga allt frá árinu 2003 og er ekki talin ástæða til að fresta atkvæðagreiðslu um tillögu um sameiningu þessara sveitarfélaga þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. frumvarpsins. Er því lagt til að íbúar þessara fimm sveitarfélaga gangi að kjörborðinu hinn 23. apríl nk. til að greiða atkvæði um sameiningu þeirra.

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum