Hoppa yfir valmynd
17. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Útreikningur á fjárhagslegum áhrifum tillagna tekjustofnanefndar og annarra breytinga á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga

Tillögur tekjustofnanefndar eru eftirfarandi:

1.   Viðbótarframlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á árunum 2006–2008.

Tillagan skilar sveitarfélögunum 700 m.kr. ár hvert eða alls 2.100 m.kr. á árunum 2006–2008.

 

2.   Undanþágur frá greiðslu fasteignaskatts, sbr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, verði afnumdar frá og með 1. janúar 2006 í samræmi við tillögur nefndar frá desember 2001. Álagning fasteignaskatts komi til framkvæmda í áföngum á árunum 2006–2008.

Tillagan skilar sveitarfélögunum 200 m.kr. árið 2006, 400 m.kr. árið 2007 og 600 m.kr. frá og með árinu 2008. Samtals 1.200 m.kr. árin 2006–2008 en varanlega 600 m.kr. á ári frá þeim tíma.

 

3.   Varasjóði húsnæðismála verði heimilað að auka rekstrar- og söluframlög vegna félagslegra íbúða í eigu sveitarfélaga og aðstoða við úreldingu þeirra. Framlögin koma til greiðslu á árunum 2005, 2006 og 2007.

Tillagan skilar sveitarfélögunum 280 m.kr. á ári eða samtals 840 m.kr. á árunum 2005–2007.

 

4.   Gildandi lög um fjárhagslegan stuðning við fráveituframkvæmdir sveitarfélaga verði framlengd til ársins 2008. Sameiginlega verði farið gagnrýnið yfir kröfur um fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og kannaðar leiðir til að draga úr kostnaði.

Tillagan skilar sveitarfélögunum 200 m.kr. á ári eða samtals 600 m.kr. á árunum 2006–2008.

 

5.   Lögum um skráningu og mat fasteigna og tekjustofna sveitarfélaga verði breytt þannig að greiðsla fasteignaskatts hefjist frá næstu mánaðamótum eftir að eign er fyrst metin fasteignamati. Jafnframt verði unnið að endurskoðun á fasteignamati landa og jarða og lagaákvæðum er það varðar.

Tillagan skilar sveitarfélögunum allt að 200 m.kr. í varanlegan tekjuauka á ári, samtals 600 m.kr. á árunum 2006–2008.

 

6.   Skipuð verði nefnd sem hafi það hlutverk að endurskoða reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga einkum m.t.t. breytinga á sveitarfélagaskipan. Nefndin taki mið af sjónarmiðum sem komið hafa fram við vinnu sameiningarnefndar og tekjustofnanefndar. Stefnt verði að því að nefndin ljúki störfum fyrir 1. október 2005.

Tillagan hefur á þessu stigi ekki bein fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélögin.

 


Fjárhagsleg áhrif tillagna tekjustofnanefndar sundurliðast þannig:

 

Tillaga

Varanleg áhrif

(árleg frá og með 2009)

Tímabundin áhrif

2005–2008

Viðbótarframlag í jöfnunarsjóð

 

2.100 m.kr.

Fækkun undanþága fasteignask.

600 m.kr.

1.200 m.kr.

Aukin framlög Varasjóðs húsnæðismála

 

   840 m.kr.

Fráveitumál

 

   600 m.kr.

Br. á dags. greiðslu fasteignaskatts

200 m.kr.

   600 m.kr.

Samtals

800 m.kr.

5.340 m.kr.

 

Aðrar breytingar á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga

 

Í fylgiskjali með tillögum nefndarinnar eru raktar ýmsar breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga vegna lagabreytinga og annarra ástæðna á undanförnum mánuðum. Þær eru eftirfarandi:

 

  • Í samræmi við viljayfirlýsingu frá 17. september 2004 verður allt að 2,4 ma.kr. varið til sameiningarframlaga á næstu árum.
  • Skylda sveitarfélaga til að greiða framlag í Varasjóð viðbótarlána er fallin niður. Á árinu 2004 námu framlög sveitarfélaga í Varasjóð viðbótarlána um 300 m.kr.
  • Með breytingu á lögum um húsnæðismál, sbr. lög nr. 120/2004, var aukinn stuðningur við sveitarfélög vegna félagslega húsnæðiskerfisins. Samkvæmt áætlun er um að ræða u.þ.b. 60 m.kr. í aukin framlög á ári m.v. núverandi höfuðstól. Þá er nú hafin vinna við að kanna leiðir til að styrkja rekstrargrunn þess enn frekar.
  • Framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga fellur niður frá árinu 2005. Um er að ræða u.þ.b. 260 m.kr. árlegt framlag.
  • Stofnframlög jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga með færri en 2.000 íbúa falla niður frá árinu 2006. Um er að ræða u.þ.b. 200 m.kr. árlegt framlag.

 


Fjárhagsleg áhrif vegna lagabreytinga og annarra ástæðna sundurliðast þannig:

 

Ráðstöfun

Varanleg áhrif

(árleg frá og með 2009)

Tímabundin áhrif

2005–2008 (2009)

Sameiningarframlög

 

2.400 m.kr. (til 2009)

Brottfall framlaga í varasjóð viðbótarlána

300 m.kr.

1.200 m.kr.

Framlag varasjóðs v/sölu félagsl. húsnæðis

 

   145 m.kr.

Framlag JS í Lánasjóð sveitarfélaga

260 m.kr.

 

Stofnframlög til sveitarf. með <2.000 íbúa

200 m.kr.

   470 m.kr.

Samtals

760 m.kr.

4.215 m.kr.

Þegar horft er til tillagna tekjustofnanefndar og allra breytinga á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem raktar eru í fylgiskjali 1 er ljóst að áhrif tillagnanna eru mjög mikil. Varanleg áhrif, frá og með árinu 2009, eru rúmlega 1,5 milljarða króna árleg tekjuaukning hjá sveitarfélögum. Tímabundin áhrif eru hins vegar um 9,5 milljarðar króna á tímabilinu 2005–2008 (2009).

Ekki er í öllum tilfellum um fjármuni úr ríkissjóði að ræða heldur er einnig um að ræða heimildir til ráðstöfunar eigin fjár sjóða í eigu sveitarfélaganna og tilfærslu fjármuna milli verkefna. Framlag úr ríkissjóði til sveitarfélaga á árunum 2005–2008 nemur 5,0 milljörðum króna en varanleg tilfærsla fjármuna frá ríki til sveitarfélaga, sem kemur til vegna fækkunar undanþága frá greiðslu fasteignaskatts, nemur 600 m.kr. á ári.

Neðangreind tafla sýnir útreikning á fjárhagslegum áhrifum tillagna tekjustofnanefndar eftir árum.

Skjal fyrir Acrobat ReaderÚtreikningur á fjárhagslegum áhrifum tillagna tekjustofnanefndar eftir árum (PDF, 80 KB)



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum