Afgerandi stuðningur almennings við sameiningu sveitarfélaga
Niðurstöður viðhorfskannana sem IMG Gallup hefur unnið fyrir félagsmálaráðuneytið gefa vísbendingar um að meirihluti almennings sé hlynntur sameiningu sveitarfélaga. Rúmlega 66% svarenda eru mjög eða frekar hlynnt sameiningu sveitarfélaga. Ríflega 22% svarenda eru mjög eða frekar andvíg. Rúm 11% eru hlutlaus. Í öllum landshlutum er meirihluti svarenda hlynntur sameiningu. Í öllum aldurshópum mælist mikill meirihluti með sameiningu. Könnunin var umfangsmikil og voru 1.745 einstaklingar spurðir á þriggja mánaða tímabili. Svarhlutfall var 66,1%. Svarendur voru á aldrinum 16 til 75 ára og var notast við slembiúrtak úr þjóðskrá.
Áberandi er að stuðningur við sameiningu sveitarfélaga er afgerandi í sveitarfélögum sem hafa verið sameinuð á síðustu árum, en í Reykjanesbæ, Fjarðabyggð, Skagafirði, Árborg og á Fljótsdalshéraði er alls staðar yfir 70% svarenda hlynnt sameiningu sveitarfélaga. Þær niðurstöður gefa vísbendingar um að íbúar þeirra sveitarfélaga séu ánægðir með sitt sameinaða sveitarfélag.
Tillögur sameiningarnefndar
Í tillögum sameiningarnefndar sem kynntar verða á XIX. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í dag er gert ráð fyrir því að flest sveitarfélög í landinu myndi heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði og verði nægilega öflug til að sinna helstu lögbundnu og venjubundnu verkefnum sveitarfélaga.
Ef allar tillögur nefndarinnar ganga eftir mun meirihluti sveitarfélaga hafa fleiri en 1.000 íbúa og aðeins 9 sveitarfélög hafa færri en 500 íbúa í stað 51 í dag. Tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir að í landinu verði 46 sveitarfélög frá og með sveitarstjórnarkosningum 2006 en þau eru nú 101 talsins. Meðalíbúafjöldi í sveitarfélagi hækkar þannig úr um 2.800 íbúum að meðaltali í sveitarfélagi í um 6.400.
- Tillögur sameiningarnefndar eru bindandi, þ.e. íbúar munu greiða um þær atkvæði í samræmi við sveitarstjórnarlög, nr. 45/1998, með síðari breytingum.
- Sveitarstjórnir sem sameiningartillaga varðar skulu tilnefna tvo fulltrúa hver í samstarfsnefnd sem undirbýr atkvæðagreiðslu um tillöguna og gerir kynningarefni um áhrif hugsanlegrar sameiningar.
- Íbúar hvers sveitarfélags skera úr um hvort sveitarfélag þeirra verði sameinað öðrum á grundvelli tillögu sameiningarnefndar.
- Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslur um sameiningartillögur fari fram þann 8. október næstkomandi.
Fjöldi sveitarfélaga 2006, gangi tillögur sameiningarnefndar eftir:
Könnun IMG Gallup
Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þeim áformum sem eru uppi í þínu sveitarfélagi varðandi sameiningu sveitarfélaga?
Gallup 8. mars 2005
XIX. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga
XIX. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga
Tillögur sameiningarnefndar
Smári Geirsson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar.
Sveitarfélagakort samkvæmt tillögum sameiningarnefndar (18. mars 2005)