Ný lög frá Alþingi um frestun sameiningarkosninga
Alþingi samþykkti í gær ný lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Lögin fela það í sér að atkvæðagreiðsla um sameiningu sveitarfélaga fer fram laugardaginn 8. október 2005, í stað 23. apríl nk., eins og gert er ráð fyrir í framangreindum lögum.
Samstarfsnefnd á hverju svæði verður þó heimilt að láta atkvæðagreiðsluna fara fram fyrr ef það er mat nefndarinnar að sameiningartillaga muni hljóta næga kynningu meðal íbúa fyrir kjördaginn. Skal samstarfsnefndin kynna félagsmálaráðuneytinu þá ákvörðun sína svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 20. maí 2005 til að ráðuneytið geti gert ráðstafanir til að láta utankjörfundaratkvæðagreiðslu hefjast tímanlega fyrir kjördag.
Í lögunum er heimiluð ein undantekning frá framangreindri frestun, þ.e.a.s. að atkvæðagreiðsla um sameiningu Borgarbyggðar, Borgarfjarðarsveitar, Hvítársíðuhrepps, Kolbeinsstaðahrepps og Skorradalshrepps fari fram þann dag sem samstarfsnefnd kjörin af sveitarstjórnum þessara sveitarfélaga hefur þegar ákveðið. Markvisst hefur verið unnið að undirbúningi sameiningar þessara sveitarfélaga allt frá árinu 2003 og er ekki talin ástæða til að fresta atkvæðagreiðslu um tillögu um sameiningu þessara sveitarfélaga þrátt fyrir ákvæði. Íbúar þessara fimm sveitarfélaga ganga því að kjörborðinu hinn 23. apríl nk. til að greiða atkvæði um sameiningu þeirra.
Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum.