Hoppa yfir valmynd
30. mars 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Athugasemd frá félagsmálaráðuneyti vegna fréttar Hagstofu Íslands um afkomu sveitarfélaga 2004

Hagstofa Íslands birti í dag, 30. mars, frétt með bráðabirgðauppgjöri hins opinbera fyrir árið 2004. Samkvæmt fréttinni var afkoma sveitarfélaga neikvæð um 9,7 milljarða króna. Af því tilefni telur félagsmálaráðuneytið ástæðu til að benda á að niðurstöðutölur um afkomu sveitarfélaga í frétt Hagstofunnar eru byggðar á uppgjöri samkvæmt þjóðhagsreikningakerfi sem er verulega frábrugðið og alls ekki samanbærilegt því hefðbundna bókhaldsuppgjöri sem ársreikningar sveitarfélaga eru gerðir eftir. Munur uppgjörsleiðanna felst meðal annars í skilgreiningu og færslu skatttekna og meðhöndlun fjárfestinga, bókfærðra afskrifta og fjármagnsliða.

Ríki og sveitarfélög hafa sameinast um að rekstrarafkoma sveitarfélaga skuli metin út frá þeim almennu reikningsskilavenjum sem ársreikningar eru gerðir eftir. Flestar sveitarstjórnir eru nú að afgreiða ársreikning fyrir árið 2004 og munu ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga birta afkomutölur þegar þær liggja fyrir.

Þess má geta að samkvæmt fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir árið 2004 var áætluð rekstrarafkoma allra sveitarfélaga jákvæð um rúmlega 350 m.kr.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum