Breyting á reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga
Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út reglugerð um breytingu á reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, nr. 374/2001, með síðari breytingum. Breytingin er gerð að höfðu samráði við eftirlitsnefndina og að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga og felur hún í sér að sveitarfélögum verði framvegis skylt að senda eftirlitsnefndinni greinargerð með fjárhagsáætlun, þriggja ára áætlun og ársreikningi ef niðurstaða áætlunar eða ársreiknings er að sveitarfélagið sé rekið með halla. Í slíkri greinargerð ætti að rekja helstu ástæður hallareksturs og gera grein fyrir því hvort sveitarstjórn líti svo á að um sé að ræða tímabundinn halla, svo sem vegna fjárfestinga eða af öðrum ástæðum, eða viðvarandi rekstrarvanda. Jafnframt ætti að gera grein fyrir aðgerðum sem sveitarstjórn hyggst grípa til vegna hallans.
Markmið breytingarinnar er að tryggja að fyrir upphaf árlegrar athugunar eftirlitsnefndar liggi fyrir skýringar sveitarstjórnar ef rekstrarniðurstaða skv. fjárhagsáætlun eða ársreikningi er neikvæð, sbr. 3. mgr. 61. gr. sveitarstjórnarlaga og 5. gr. reglugerðar um eftirlitsnefnd. Varla þarf að óttast að með breytingunni sé verið að fara fram á óþarfa vinnu eða skapa kostnað fyrir sveitarfélögin enda verður að ætla að skýringar á hallarekstri séu rækilega tíundaðar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar og ársreiknings í sveitarstjórn. Kostnaður af breytingunni er þ.a.l. enginn en hún mun hins vegar mögulega spara sveitarfélögum og eftirlitsnefnd umtalsverða vinnu við árlega yfirferð nefndarinnar. Ef tilefni er til gæti nefndin þó kallað eftir frekari upplýsingum og skýringum, telji hún það nauðsynlegt.
Reglugerðin tekur þegar gildi og ber sveitarfélögum að taka tillit til þess verklags sem þar er mælt fyrir um við afgreiðslu ársreiknings fyrir árið 2004.