Umhverfisráðuneytið staðfestir úrskurð Skipulagsstofnunar um rafskautaverksmiðju
Umhverfisráðuneytið hefur staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar frá síðastliðnu hausti um að fallast á byggingu rafskautaverksmiðju á Katanesi í Hvalfirði. Tildrög málsins eru þau að í byrjun september í fyrra féllst Skipulagsstofnun á byggingu verksmiðjunnar með tilteknum skilyrðum. Meðal skilyrðanna eru reglubundnar mælingar á útblæstri, eftirlit með lífríki og mótvægisaðgerðir í samráði við Umhverfisstofnun. Um miðjan október kærðu Landvernd og umhverfisnefnd Skilmannahrepps úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðuneytisins. Áður en úrskurður var kveðinn upp leitaði ráðuneytið umsagnar nokkurra aðila um kærurnar, þeirra á meðal Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar.