Breytingar á veiðieftirliti Fiskistofu
Sjávarútvegsráðherra kynni í Vestmannaeyjum í dag breytingar sem verða gerðar á Veiðieftirliti Fiskistofu. Þær felast í að stofnuð verða fjögur ný útibú Fiskistofu, í Vestmannaeyjum á Höfn, í Stykkishólmi og Grindavík. Bætt verður við 4 nýjum stöðugildum í veiðieftirliti. Þeir sem við það starfa eru nú 35 og búa á höfuðborgarsvæðinu.
Á næsta ári verður nýtt útibú Fiskistofu opnað í Vestmannaeyjum og munu 5 starfsmenn vinna við það. Hér er að mestu leyti um nýja starfsemi að ræða en útibúið mun sjá um alla bakreikninga afurða og færa þá til afla fyrir Fiskistofu. Reynslan sýnir að þetta er flókið og erfitt verkefni og því nauðsynlegt að koma upp sérhæfingu á þessu sviði með því að stofna sérstaka bakreikningadeild á veiðieftirlitssviði sem jafnframt er ætlað að sinna öðru bókhaldseftirliti. Stofnun þessarar deildar er meðal annars nauðsynleg vegna nýrra og nútímalegra áherslna sem koma munu fram í nýrri vigtarreglugerð á næstu mánuðum. Í ljósi nútíma samskiptatækni er lag að hafa deildina í Vestmannaeyjum. Fjórir starfsmenn munu sinna þessum hluta í starfsemi útibúsins en jafnframt yrði ráðinn veiðieftirlitsmaður sem myndi annast eftirlit á sjó og landi hér í Eyjum.
Á næsta ári verður einnig opnað nýtt útibú á Höfn í Hornafirði sem myndi þjónusta landssvæðinu frá Höfn að Vopnafirði. Í fyrstu yrðu ráðnir tveir eftirlitsmenn og yfirmaður útibús. Á árinu 2007 yrðu svo ráðnir tveir eftirlitsmenn til viðbótar á Höfn og því yrði heildarstarfsmannafjöldi þar sá sami og í Vestmannaeyjum eða fimm manns. Sama ár verður nýtt útibú opnað í Stykkishólmi með þremur eftirlitsmönnum auk yfirmanns en þjónustusvæði útibúsins yrði Snæfellsnes og Vestfirðir.
Árið 2008 verða svo þrír eftirlitsmenn til viðbótar ráðnir í Stykkishólm. Heildarfjöldi starfsmanna þar verður því sjö manns þar af yrðu 1-2 staðsettir á Vestfjörðum. Einnig verður á árinu 2008 opnað nýtt útibú á Grindavík með þremur eftirlitsmönnum auk yfirmanns sem sæi um eftirlit á Suðurnesjum og austur fyrir fjall. Síðasta árið í þessu átaki, árið 2009, verða svo ráðnir þrír eftirlitsmenn til Grindavíkur til viðbótar og verða þeir því sjö samtals. Einnig verða árið 2009 ráðnir tveir starfsmenn til viðbótar við þá fimm sem þegar starfa á Akureyri en það útibú mun sinna eftirliti frá Vopnafirði til og með Hvammstanga. Eftirlitið frá og með Akranesi í Hafnarfjörð myndi loks falla undir Fiskistofu í Reykjavík en þar munu í allt starfa 8 manns þar af tveir eftirlitsmenn.
Það verða því stofnuð fjögur ný útibú; í Vestmannaeyjum, Höfn, Stykkishólmi og Grindavík auk þess sem eftirlitsmönnum verður fjölgað á Akureyri. Árið 2009 verða starfsmenn veiðieftirlitsins því 39 talsins en eru nú 35. Nýju stöðurnar fjórar verða allar í nýju bakreikningsdeildinni hér í Vestmannaeyjum eins og áður segir.
Hér er verið að stíga skref í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að treysta undirstöður byggðar í landinu og jafna skilyrði til atvinnu. Eftirlit Fiskistofu fer fram þar sem sjávarútvegur er stundaður og því er eðlilegt að starfsemin sé staðsett þar.
Sjávarútvegsráðuneytið
5. apríl 2005