Veiðar á úthafskarfa 2005
Veiðar á úthafskarfa 2005.
Ráðherra hefur í dag gefið út reglugerð um veiðar á úthafskarfastofnum 2005. Samkvæmt reglugerð þessari er íslenskum skipum heimilt að veiða samtals 34.470 lestir af úthafskarfa á þessu ári og skiptist þetta magn þannig að heimilt er að veiða 28.200 lestir á deilisvæðinu sem að hluta liggur innan lögsögunnar en 6.270 á deilisvæðinu sem liggur alfarið utan lögsögunnar. Á síðustu árum hefur heildarkvótinn verið 55.000 lestir.
Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) fyrir árið 2005 gerði ráð fyrir að veiðar myndu takmarkast við 41.000 lestir, en sú ráðgjöf tók aðeins tillit til annars af karfastofnunum tveimur. Á ársfundi Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) lögðu strandríkin til að miðað yrði við að jafn mikið yrði veitt úr báðum stofnunum, og heildarveiði yrði því takmörkuð við 82.000 tonn. Ekki náðist samkomulag um stjórn veiðanna á ársfundinum, aðallega vegna deilna um hvort rétt væri að hafa aðskilda stjórnun fyrir stofnana tvo. Eftir fundinn fóru fram óformlegar samningaviðræður sem lauk með því að strandríkin lögðu fram endurskoðaða tillögu sem tekin verður fyrir innan NEAFC með póstatkvæðagreiðslu. Samkvæmt tillögunni er leyfilegur heildarafli alls 75.200 tonn og skulu aðildarríki tilkynna NEAFC hvernig stjórn veiða verður háttað hjá þeim, þ.m.t. skipting milli stofna/veiðisvæða. Þar sem ljóst er að endanleg niðurstaða úr þeirri atkvæðagreiðslu kemur ekki til með að liggja fyrir fyrr en komið er fram á sumar verður ekki hjá því komist að taka þá ákvörðun um heildarkvóta til íslensku skipanna sem hér hefur verið kynnt. Lækkun á leyfilegum afla íslenskra skipa er í samræmi við lækkun samkvæmt framangreindri tillögu.
Sjávarútvegsráðuneytið, 5. apríl 2005.