Breytingar á stjórnarskrá Íslands – viðhorf Siðmenntar
SIÐMENNT Félag siðrænna húmanista á Íslandi
Reykjavík 31. mars 2005
STJÓRNARSKRÁRNEFND
Jón Kristjánsson
EFNI: Breytingar á stjórnarskrá Íslands – viðhorf Siðmenntar
Stjórn Siðmenntar, félags siðrænna húmanista á Íslandi, telur að eitt af markmiðum stjórnvalda eigi að vera að tryggja frelsi einstaklinga og vernda rétt þeirra til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Stjórnvöld eiga að vera hlutlaus, óháð trúarbrögðum og eiga ekki að hygla ákveðnum lífsskoðunum umfram önnur. Þess vegna verður að aðskilja ríki og kirkju. Aðskilnaður ríkis og kirkju felur m.a. í sér að jafna lagalega, fjárhagslega og félagslega stöðu þeirra hópa sem aðhyllast ólíkar lífsskoðanir. Öðruvísi verður trúfrelsi, og þar með frelsi einstaklingsins, ekki tryggt.
Ekki trúfrelsi á Ísland
Stjórn Siðmenntar telur að ekki ríki fullt trúfrelsi hér á landi þrátt fyrir ákvæði um stjórnarskrábundinn rétt. Vill stjórnin því nota þetta tækifæri að koma á framfæri skoðunum sínum og tillögum er gætu nýst stjórnarskránefnd við störf sín.
Það eru einkum átta atriði sem Siðmennt vill benda á í þessu sambandi:
- Stjórnarskráin
- Fjárhagsleg mismunun – lífsskoðunarfélaga og einstaklinga
- Trúboð og hlutdræg kennsla í opinberum skólum
- Alþingi Íslendinga
- Helgidagalöggjöfin
- Skráning í trúfélög
- Grafreitir undir stjórn kirkjunnar
- Guðfræðideild Háskóla Íslands
Ekki þykir rétt í þessu erindi til stjórnarskránefndar að rökstyðja öll atriðin hér og nú heldur eingöngu einbeita sér að því sem að stjórnarskránni lýtur en að öðru leyti er bent á rökstuðning félagsins á heimasíðu þess http://www.sidmennt.is/trufrelsi/
Stjórnarskráin - Andstæðar greinar stjórnarskrárinnar
Stjórn Siðmenntar telur að ekki ríki fullt trúfrelsi á Íslandi þrátt fyrir að getið sé um slíkt í stjórnarskrá lýðveldisins en í 62. grein stjórnarskrárinnar segir:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skali ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
En í 65. greininni segir
Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Augljóslega stangast þessar tvær greinar á en önnur tekur af öll tvímæli um sérstöðu einnar lífsskoðunar fram yfir aðrar. Hin greinin kveður hinsvegar á um jafnan rétt allra lífsskoðana.
Að mati Siðmenntar brýtur 62. greinin í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sem sett var inn í hana með breytingum sem gerðar voru á stjórnarskránni 1995 án þess að hreyft hafi verið við ákvæði um ríkiskirkju.
Stjórnarskráin tryggir vissulega rétt allra til þess að stunda trú sína en ekki er nægilega fast að kveðið að tryggja skuli einnig réttinn að vera án trúar.
Fjárhagsleg mismunun
Fjárhagsleg mismunun er á milli ríkisins og Þjóðkirkjunnar annars vegar og ríkisins og annara lífsskoðunarfélaga hins vegar sem hlýtur að teljast óeðlilegt ef trúfrelsi á að ríkja. Í þessu sambandi má nefna að ríkið greiðir enn laun presta og annarra starfsmanna Þjóðkirkjunnar.
Siðmennt gagnrýnir það vinnulag sem beitt var við gerð samnings við Þjóðkirkjuna árið 1998 er ríkið skuldbatt sig um aldur og ævi (eins og segir í þeim gögnum) að greiða tiltekinn kostnað. Í staðinn yfirtók ríkið eigur kirkjunnar án þess að nokkurt heildstætt mat færi fram á virði þeirra. Siðmennt telur slíkan samning ekki geta skuldbundið ríkið um óákveðinn tíma.
Ríkisvaldið sér einnig um að innheimta sóknargjöld fyrir trúfélög en það er einnig andstætt trúfrelsis hugtakinu. Einnig þykir stjórn Siðmenntar rétt að benda á að bundin er í 64. grein stjórnarskrárinnar mismunun þegna eftir því hvaða lífskoðun þeir aðhyllast en þar stendur:
Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns.
Félagsmenn Siðmenntar aðhyllast húmanisma (manngildisstefnu) sem lífsskoðun en til skýringar eru trúfélög einnig lífsskoðunarfélög. Félagsmönnum okkar og öðrum þeim er utan trúfélaga standa er einum þegna þessa lands óheimilt að ráðstafa svokölluðum sóknargjöldum eins og aðrir. Sóknargjöld okkar renna þess í stað til sérstaks sjóðs hjá Háskóla Íslands.
Siðmennt hefur í tvígang á síðustu árum óskað eftir skráningu sem lífsskoðunarfélag hjá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og er síðari umsóknin enn til skoðunar, er þetta er ritað, en þeirri fyrri var hafnað. Lög um skráningu trúfélaga heimila öllum lífsskoðunum slíka skráningu en vegna óskiljanlegarar túlkunar ráðuneytisins hefur slíkt ekki fengist. Siðmennt hefur margsinnis bent á stöðu systursamtaka okkar í Noregi er bera nafnið Human Etisk Förbund (HEF – www.human.no) sem hefur haft slíka skráningu frá árinu 1982 og er í dag næst stærsta lífsskoðunarfélagið eftir norsku þjóðkirkjunni með tæplega 70.000 félagsmenn.
Tillögur Siðmenntar til breytingar á stjórnarskrá Íslands
Ef saman eru dregnar kröfur Siðmenntar sem tillögur til stjórnarskránefnda þá eru þær eftirfarandi:
Lögbundinn verði í stjórnarskránni aðskilnaður ríkis og kirkju og 62. grein hennar verði afnumin.
- Slík breyting hefur í för með sér yfirgripsmikla breytingu á öðrum lagagreinum sem snerta sama málefni og gæti slík vinna tekið langan tíma. Siðmennt leggur ríka áherslu á að menn gefi sér góðan tíma í að undirbúa aðskilnað því margar lagagreinar snerta sama efni
- Grein 64 verði afnumin og allir hafi rétt til þess að ráðstafa sínum gjöldum í hvaða lífsskoðunarfélag sem er eða greiða þau ekki.
Það er óeðlilegt að hluti þegna Íslands hafi ekki vald til þess að ráðstafa sínum sóknargjöldum að eigin vild eða velja að engin slík gjöld verði innheimt.
Stjórn Siðmenntar er reiðubúinn að mæta á fund stjórnarskránefndar til þess að skýra mál sitt nánar.
Virðingarfyllst
f. h. Siðmenntar
------------------------------------
Hope Knútsson
Æsufelli 4, 2F
111 Reykjavík
www.sidmennt.is