Skýrsla sameiningarnefndar
Sameiningarnefnd hefur lagt fram tillögur sínar um breytta sveitarfélagaskipan, með það að markmiði að hvert sveitarfélag verði heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði. Viðhorfskannanir veita vísbendingar um að mikill meirihluti almennings sé hlynntur sameiningu sveitarfélaga.
Starf sameiningarnefndar hófst sem kunnugt er haustið 2003 að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga, en í nefndinni sitja þrír sveitarstjórnarmenn, þrír alþingismenn og einn fulltrúi félagsmálaráðherra. Samkvæmt tillögum nefndarinnar munu íbúar 66 sveitarfélaga ganga til atkvæðagreiðslu um sameiningu síns sveitarfélags við nágrannasveitarfélag/félög. Niðurstöður viðhorfskannana sem IMG Gallup hefur reglulega unnið fyrir félagsmálaráðuneytið veita vísbendingar um að meirihluti almennings hér á landi sé hlynntur sameiningu sveitarfélaga. Rúmlega 66% svarenda eru mjög eða frekar hlynnt sameiningu sveitarfélaga.
Athygli vekur að stuðningur við sameiningu sveitarfélaga er afgerandi í sveitarfélögum sem hafa verið sameinuð á undanförnum árum. Í Reykjanesbæ, Fjarðabyggð, Skagafirði, Árborg og á Fljótsdalshéraði eru yfir 70% svarenda á hverju þessara svæða hlynntir sameiningu sveitarfélaga. Þær niðurstöður veita vísbendingar um að íbúar telji að sameiningar á þeirra svæðum hafi reynst jákvæðar.
Gerðar eru tillögur um sameiningu sveitarfélaga í öllum landshlutum, en flestar eru sameiningartillögurnar á landsbyggðinni þar sem sveitarfélögin eru fámennust. Meðfylgjandi tafla sýnir hlutfall fámennra sveitarfélaga eftir landshlutum.
Sv. m/ færri | Hlutfall færri | Sv. m/ færri | Hlutfall færri | ||
Sveitarfélög | en 500 íbúa | en 500 íbúa | en 1.000 íbúa | en 1.000 íbúa | |
Landið allt | 101 | 51 | 50% | 69 | 68% |
Höfuðborgarsvæði | 8 | 1 | 13% | 1 | 13% |
Vesturland | 17 | 10 | 59% | 13 | 76% |
Vestfirðir | 11 | 8 | 73% | 9 | 82% |
Norðurland vestra | 12 | 6 | 50% | 9 | 75% |
Norðurland eystra | 19 | 13 | 68% | 16 | 84% |
Austfirðir | 13 | 7 | 54% | 10 | 77% |
Suðurland | 16 | 6 | 38% | 10 | 63% |
Suðurnes | 5 | 0 | 0% | 1 | 20% |
Eins og sjá má telur um helmingur sveitarfélaga í landinu færri en 500 íbúa og um 70% telja færri en 1.000 íbúa. Í þessum sveitarfélögum búa um 8% þjóðarinnar. Flest þessara sveitarfélaga eru utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja.
Hljóti allar tillögur nefndarinnar brautargengi íbúa viðkomandi sveitarfélaga mun meirihluti sveitarfélaga hafa fleiri en 1.000 íbúa og aðeins 9 sveitarfélög hafa færri en 500 íbúa. Meðalíbúafjöldi í sveitarfélagi hækkar þannig úr um 2.800 íbúum að meðaltali í sveitarfélagi í um 6.400.
Nefndin telur að breytingar þær sem hún leggur til á sveitarfélagaskipan á Íslandi séu til þess fallnar að efla sveitarfélögin og skjóta styrkari stoðum undir byggð í landinu. Í langflestum tilvikum ná hin nýju sveitarfélög yfir heildstætt atvinnu- og þjónustusvæði sem eykur möguleika á heildarstefnumótun á viðkomandi svæði. Nefndin hefur í starfi sínu lagt áherslu á að íbúar sveitarfélaga um land allt fái tækifæri til þess að taka afstöðu í sameiningakosningum og jafnframt að litið sé á þær sameiningar sem nú eru lagðar til sem skref á lengri leið.