Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ársfundur Umhverfisstofnunar

Ávarp umhverfisráðherra

á ársfundi Umhverfisstofnunar 8. apríl 2005 á Grand Hóteli.

Ágætu gestir.

Það er mér sönn ánægja að ávarpa ykkur hér á ársfundi Umhverfisstofnunar. Nú eru aðeins rúm tvö ár síðan Umhverfisstofnun tók til starfa. Enn er ekki raunhæft að leggja faglegt mat á það hvernig til hefur tekist. Það bíður seinni tíma. Stofnunin hefur farið afar vel af stað sem skiptir miklu máli og víst er að miklar vonir eru bundnar við starfsemi hennar. Sem kunnugt er var Umhverfisstofnun falið að taka yfir verkefni Hollustuverndar ríkisins, sem hafði starfað frá árinu 1982, Náttúruverndar ríkisins, sem tók við af Náttúruverndarráði 1996, Veiðistjóraembættisins, sem hafði verið starfrækt frá því á sjötta áratugnum, og Hreindýraráðs, sem hafði starfað frá 1994, auk þess sem stofnuninni var falið að fjalla sérstaklega um dýraverndarmál, sem sannast sagna höfðu verið nokkuð afskipt í stjórnkerfinu fram að því.

Í stuttu máli má segja að starfsemi stofnunarinnar snúist um umhverfismál í víðasta skilningi, auk þess sem matvælamálefni og matvælarannsóknir heyra undir hana. Víða í nágrannalöndunum er reyndar farið að líta á matvælamál sem umhverfismál og má þar sem dæmi nefna Bretland þar sem umhverfismál og matvælamál hafa verið sameinuð í einu ráðuneyti. Umhverfisstofnun byggir því á traustum grunni auk þess sem starfsemi hennar er óvenju fjölbreytt. Mér er til efs að nokkur ein stofnun í stjórnkerfinu hér á landi sinni eins mörgum og víðfeðmum verkefnum.

Af hálfu ráðuneytisins hefur verið lagt kapp á að hlúa að starfsemi stofnunarinnar. Ráðuneytið hefur reynt að mæta þörfum hennar vegna aukinna verkefna ekki síst í tengslum við framkvæmd náttúruverndar og EES-samningsins en segja má að um 70 - 80% þeirra laga og reglna sem stofnunin starfar eftir séu með einum eða öðrum hætti tengd framkvæmd EES-samningsins. Við framkvæmd ýmissa verkefna á vegum stofnunarinnar hefur hins vegar komið fram í ríkari mæli en áður hve verkaskipting, annars vegar milli stofnana ríkisins og þar með einstakra ráðuneyta og hins vegar ríkis og sveitarfélaga, skiptir miklu máli. Í sumum tilvikum er verkaskipting alveg klár og á það sérstaklega við um þau mál er varða mengunarvarnir sem og efni og efnavörur en í öðrum tilvikum eru línurnar ekki nægjanlega skýrar og nefni ég þar t.d. matvælamálin sem vistuð eru í þremur ráðuneytum og þremur stofnunum og dýraverndarmálin sem skarast að hluta til við verkefni á vegum landbúnaðarráðuneytisins, þ.e.a.s. yfirdýralæknis og héraðsdýralækna.

Matvælamálin hafa verið til umræðu undanfarin ár eða allt frá 1999 að ríkisstjórnin ákvað að tillögu umhverfisráðherra að fela nefnd um opinberar eftirlitsreglur að fara yfir málið. Nefndin skilaði tillögu í febrúar 2001 þar sem lagt er til að starfsemin verði rekin undir einu ráðuneyti, þótt ráðuneytið sé ekki tilgreint, einni stofnun og einni löggjöf. Þessar niðurstöður hafa verið túlkaðar þannig að verið sé að leggja til að matvælaeftirlit verði rekið á vegum ríkisins. Fyrir því eru ákveðin rök ekki síst þegar haft er í huga að reka þarf slíkt eftirlit með samræmdum hætti á landinu öllu með það að leiðarljósi að allir sitji við sama borð. Slíku er ekki til að dreifa í dag t.d. ef við lítum til mjög mismunandi gjaldskráa einstakra heilbrigðiseftirlitssvæða. Enn fremur ber að hafa í huga að samkvæmt EES-samningnum, en matvælamál falla þar undir, er það ríkisvaldið þ.e.a.s. umhverfisráðuneytið sem ber ábyrgð á því að framkvæmdin sé í samræmi við settar reglur. Lítil hreyfing hefur verið á þessum málum að undanförnum og engar ákvarðanir hafa verið teknar. Hins vegar er það mitt mat að taka þurfi ákvörðun í þessum efnum sem fyrst til þess að eyða óvissu um framkvæmdina, koma í veg fyrir skörun og jafnvel að verkefni lendi milli stafs og hurðar, eins og dæmi finnast um. Einnig þarf að létta þeirri óvissu sem hlutaðeigandi starfsmenn eru óneitanlega í meðan að mál eru með þessum hætti. Ég tel að næst þegar farið verður í að skoða verkaskiptingu milli ráðuneyta hljóti þetta að verða skoðað ofan í kjölinn. En rétt er að það komi fram að það gæti dregist til myndunar ríkisstjórnar eftir næstu kosningar.

Annar þáttur sem ég vil nefna hér eru dýraverndarmál. Umhverfisstofnun hefur tekið myndarlega á þeim málum að undanförnu en við framkvæmdina hafa eigi að síður komið upp álitamál sem snúa að dýravernd í tengslum við eftirlit með búfé og í því tilviki hafa risið upp spurningar um hvað teljist búfé og landbúnaður. Á vegum umhverfisráðuneytisins og landbúnaðarráðuneytisins hafa staðið yfir viðræður um hvernig hægt sé að taka á þessum málum sérstaklega með það fyrir augum að ekki komi til tvöfalt eftirlit eða skörun sem er eitt það versta sem opinberar stofnanir geta lent í ef litið er til trúverðugleika eftirlitsins. Þannig tel ég alls ekki raunhæft að eftirlit með dýravernd, t.d. með búfé meðan það er í umsjón bænda eða í sláturhúsi, sé í höndum annarra en þeirra sem fara með eftirlit, þ.e.a.s yfirdýralæknis og héraðsdýralækna. Ég nefni framangreint sem dæmi um þætti sem þarf að taka á og hafa komið glöggt í ljós að undanförnu í tengslum við framkvæmd mála á vegum Umhverfisstofnunar.

Við horfum fram á nokkur stór mál á næstunni sem tengjast starfsemi Umhverfisstofnunar vegna framkvæmdar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og vil ég þar nefna rammatilskipun um vatn, nýja rammalöggjöf um matvæli og nýja rammalöggjöf um efni og efnavörur. Öll eru þessi mál til meðferðar hjá stjórnvöldum þótt þau séu misjafnlega langt komin. Rammalöggjöf um vatn og vatnabúskap hefur verið til umfjöllunar að undanförnu þar sem sérstaklega hefur verið litið til gildissviðs EES-samningsins. Ísland hefur, ásamt hinum EFTA-löndunum sem eiga aðild að samningnum, gert kröfu um að náttúruvernd, dýravernd, gjaldtaka og stjórnun náttúruauðlinda séu ekki hluti af EES-samningnum og verði vatnatilskipunin að því leyti ekki lögleidd hér á landi með stoð í samningnum. Hins vegar er ljóst að hinar viðamiklu tilskipanir um matvæli og um efni og efnavörur eru undantekningarlaust hluti af EES-samningnum sem leiða verður í lög hér á landi þegar fram líða stundir. Enn fremur má nefna að með fyrstu náttúruverndaráætluninni og áframhaldandi vinnu á því sviði er lögð mikil vinna á stofnunina svo að ekkert mun skorta á spennandi verkefni hjá Umhverfisstofnun á næstunni.

Við Umhverfisstofnun starfar einvala starfslið sem býr yfir einstakri þekkingu á þeim stóru og mikilvægu málaflokkum sem stofnunin annast og hefur verið ráðuneytinu stoð og stytta við framkvæmd ýmissa mála og á það ekki síst við um framkvæmd EES-samningsins sem og um náttúruverndarmál.

Ég óska Umhverfisstofnun velfarnaðar á komandi árum og vænti þess að eiga ánægjulegt og árangursríkt samstarf við stofnunina hér eftir sem hingað til.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta