Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Markáætlun um erfðafræði í þágu heilbrigðis og um örtækni

Á fundi ríkisstjórnarinnar nýlega var að tillögu menntamálarráðherra staðfest ákvörðun um markáætlun til fimm ára er fjalli um Erfðafræði í þágu heilbrigðis og um Örtækni.

Á fundi ríkisstjórnarinnar nýlega var að tillögu menntamálarráðherra staðfest ákvörðun um markáætlun til fimm ára er fjalli um Erfðafræði í þágu heilbrigðis og um Örtækni. Þetta er í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs frá 18. desember 2003 og ályktun ráðsins frá 17. desember 2004. Áætlunin hefur verið undirbúin sameiginlega af vísindanefnd og tækninefnd ráðsins. Á fyrstu tveimur árum áætlunarinnar verður varið 200 m. kr. þar af 90 m. kr. á yfirstandandi ári og 110 m.kr. á næsta ári. Til næstu þriggja ára þar á eftir verða tryggðir nauðsynlegir fjármunir til áætlunarinnar innan næsta 3ja ára fjárhagsramma Vísinda- og tækniráðs.

Menntamálaráðherra hefur skipað þriggja manna stjórn til fimm ára yfir áætlunina og skipa hana:

Rúnar Bachmann, Rafteikning hf. (formaður)

Dr. Þorgeir Þorgeirsson, líffræðingur, Íslensk erfðagreining hf.

Dr. Fjóla Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands

Rannsóknamiðstöð Íslands - RANNÍS er falin umsjón með framkvæmd styrkveitinga í umboði stjórnarinnar.Markáætlunin tekur við af markáætlun um upplýsingatækni og umhverfisrannsóknir sem stóð yfir á árunum 1998-2004. Nýja markáætlunin varðar rannsóknir á sviði erfðafræði í þágu heilbrigðis og þekkingaruppbyggingu á sviðiörtækni. Ákvörðunin um viðfangsefni þessarar nýju áætlunar er byggð á mati starfsnefnda Vísinda- og tækniráðs á tillögum um nýjar markáætlanir, en nefndirnar og RANNÍS auglýstu eftir tillögum þar um á síðastliðnu hausti.

Annars vegar er um að ræða svið, erfðafræði í þágu heilbrigðis, þar sem Íslendingar ráða yfir hlutfallslega mikilli þekkingu og ættu að geta náð miklum árangri með því sameiginlega átaki opinberra aðila og einkaaðila sem gert er ráð fyrir í þessum þætti áætlunarinnar. Hinsvegar er um að ræða nýtt þekkingarsvið, örtækni, þar sem þekkingargrunnurinn hér á landi er enn hlutfallslega veikur en miklar vonir bundnar við alþjóðlega og mikil þörf er á að styrkja hér landi. Að undanförnu hafa myndast áhugaverð skilyrði til þess að það geti gerst í samstarfi háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja sem bundist hafa samtökum í svokölluðum örtæknivettvangi. Með því að beita fjármagni á markvissan hátt væri hægt að efla innviðina á þessu þekkingarsviði hér á landi. Á milli þessara tveggja sviða þekkingar er möguleiki á verulegri samvirkni og tengslum sem hafa ber í huga, sérstaklega á seinni hluta áætlunarinnar.

Erfðafræði í þágu heilbrigðis (e. Postgenomic biomedicine) endurspeglar þá byltingu sem orðið hefur í lífvísindum á síðustu árum í kjölfar raðgreiningar erfðaefnis fjölda lífvera, þar á meðal mannsins. Líftækni er mjög vaxandi atvinnugrein á Íslandi og hefur mikill árangur náðst á þeim vettvangi. Sterkir rannsóknahópar á alþjóðlegan mælikvarða hafa orðið til í lífvísindum við háskóla, ýmsar stofnanir og fyrirtæki.

Í árdaga líftækniiðnaðarins á Íslandi var lögð megináhersla á hreina erfðalíffræði og erfðalífefnafræði með sérstöðu Íslendinga í huga. Þróun síðustu ára bendir til að líftækni muni áfram vaxa ört, einkum í notkun erfðafræðilegra upplýsinga til að skilja grundvallarferla í líffræði manna og dýra, til skilnings á sjúkdómsferlum og til að þróa greiningartækni, lyf og meðferðarform. Tilgangur markáætlunarinnar er að efla þverfaglegt samstarf hér á landi og auka styrk okkar í líf- og læknisfræði á alþjóðavísu. Reynt verður að hámarka nýtingu tækjabúnaðar og aðferðafræði sem fyrir er í landinu á þessu sviði og styrkja rannsóknir og rannsóknahópa á meginsviðum sameinda- og frumulíffræði sem þegar hafa öðlast alþjóðlega viðurkenningu. Lögð verður áhersla á grunnrannsóknir sem og hagnýt verkefni í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla til uppbyggingar íslensks atvinnulífs.

Í lok markáætlunar er þess vænst að hið öfluga íslenska vísinda- og tæknisamfélag í lífvísindum verði í fremstu röð alþjóðlega og leiðandi á afmörkuðum sviðum.

Örtækni (e. Nanoscience and nanotechnology)

er vaxandi þekkingarsvið jafnt austan hafs sem vestan á síðari árum. Sjaldan hefur einstakt svið vísinda og tækni eflst svo hratt. Í upphafi var örtækni að mestu bundin við eðlisfræði og efnavísindi með áherslu á nýjar aðferðir við þéttingu rafrása í tölvum, en nú hefur örtæknin einnig rutt sér til rúms í heilbrigðis- og lífvísindum. Því vísar hugtakið örtækni til vísinda og tækni á örsmæðarkvarða þvert á hefðbundin fagsvið eðlisfræði, efnafræði og líftækni. Hagnýting örtækninnar byggir þannig á þverfaglegu samstarfi fræðigreina og hefðbundinnar tækni og vísinda. Í markáætluninni verður miðað við að efri mörk smæðarkvarðans liggi við 10 míkrómetra.

Fáir starfa á sviði örtækni á Íslandi og er sviðið enn í burðarliðnum. Í markáætluninni verður í fyrstu lögð áhersla á að byggja upp grunnaðstöðu og styrkja færni og þekkingu í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum. Þess er vænst að grunnaðstaðan verði fyrr eða síðar sameinuð í örtæknikjarna sem nýtist sem flestum á sviðinu. Lögð verður áhersla á grunnrannsóknir sem og hagnýt verkefni í nánu samstarfi fyrirtækja og rannsóknastofnana/háskóla til uppbyggingar íslensks atvinnulífs. Gert er ráð fyrir að starfandi fyrirtæki nýti sér örtækni í vaxandi mæli og að til verði sprotafyrirtæki sem byggja starf sitt á niðurstöðum rannsókna.

Í lok markáætlunar er þess vænst að á Íslandi verði starfandi öflugir rannsóknahópar með breiða þekkingu á sviðinu og að íslenskir vísinda- og tæknimenn hafi náð að hasla sér völl í alþjóðasamstarfi í örtækni.

Áætlunin verður framkvæmd sem ein markáætlun á tveimur sviðum undir einni þriggja manna stjórn. RANNÍS mun hafa umsjón með framkvæmd áætlunarinnar.

Auglýst verður eftir verkefnum sem metin verða faglega á grundvelli vísindalegra gæða, hæfni og aðstöðu þátttakenda, áætluðum árangri og afrakstri, sem og væntanlegum ávinningi fyrir íslenskt þjóðfélag. Verkefnin skulu vera vísindalega og tæknilega framsækin og fela í sér náið samstarf og samþættingu sprota í stofnunum og fyrirtækjum á viðkomandi sviði. Sérstaklega verður tekið tillit til þess á hvern hátt verkefnið muni stuðla að framförum í íslensku þjóðlífi á komandi árum og á hvern hátt það styrkir íslenskt vísinda- og tæknisamfélag.

Að uppfylltum faglegum gæðakröfum að mati fagráðs munu þau verkefni njóta forgangs;

· sem stuðla að uppbyggingu öflugra rannsóknahópa til starfa í alþjóðlegu rannsókna- og þekkingarumhverfi,

· sem byggja á náinni samvinnu á milli rannsóknahópa í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum,

· sem fela í sér náið samstarf á milli þeirra sem ráða yfir sérþekkingu og þeirra sem nýta niðurstöður og markvisst stuðla að notkun þeirra,

· þar sem rannsóknamenntun og vísindaleg þjálfun ungra vísindamanna er hluti af framkvæmd verkefnisins,

· þar sem mikils ávinnings er að vænta í ljósi markmiða áætlunarinnar.

Markáætlunin er skipulögð í tveimur lotum og nær fyrri lotan til tveggja fyrstu áranna, 2005 og 2006. Auglýst verður tvisvar eftir umsóknum á tímabilinu, í fyrsta sinn í apríl 2005 með umsóknarfresti til 15. maí og stefnt er að fyrstu úthlutun í ágúst 2005. Gert er ráð fyrir öðrum umsóknarfresti vorið 2006. Seinni lotan nær til þriggja síðustu áranna, 2007 til 2009 og er gert ráð fyrir einum umsóknarfresti í upphafi þess tímabils, á vordögum 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum