Erindi frá Pétri Sigurgeirssyni
Hjálmholti 12 12. apríl 2005.
Hæstvirti heilbrigðis – og tryggingamálaráðherra Jón Kristjánsson.
Kæri formaður stjórnarskrárnefndar!
Þó að ég sé fyrir löngu orðinn fyrrverandi starfsmaður kirkju og ríkis, hef ég vakandi áhuga á því, sem er að gerast á þeim vettvangi, sem ég áður var. Það hvetur mig að snúa mér til þín og nefndarinnar með það málefni, sem er á dagskrá í þjóðfélaginu, og þið hafið til meðferðar. Geri ég það fyrst og fremst sem réttur og sléttur samborgari, en frá þeim skilst mér, að þið viljið fá álit um stjórnarskránna.
Á meðan ég var í embætti, man ég ekki eftir öðru, en að í þjóðfélaginu ríkti velvilji um samband ríkis og kirkju, þó að áður hafi ríkt töluverður ágreiningur – oft á tíðum.
Man ég eftir að eitt sinn kom Gunnar Thoroddsen að máli við mig og sagði mér þá í óspurðum fréttum, að eitt væri stjórnarskrárnefndin þáverandi sammála, en það væri, að hrófla í engu við sambandi ríkis og kirkju í skránni.
Nú er öldin önnur og skjótt skipast veður í lofti. Það reyndi heimsbyggðin sárt og sviplega 11. sept. 2001 og síðan í vaxandi mæli. Orsökin liggur dýpra en margur hyggur. Nú hriktir í stoðum margra þjóðfélaga, og ekki síst þar sem um mikinn ágreining er að ræða í trúmálum, en áhrif þeirra átaka ná alla leið út hingað. Er óþarfi að tíunda þá hluti fyrir þér og nefndarmönnum frekar. Þegar stormar vilja hrekja skip af leið, er mikils virði, að þau geti haldið stefnu sinni. Hið sama gildir um þjóðarskútuna, sem í aldanna rás hefur borið gæfu til að eiga áttavita, sem hún hefur stýrt eftir í gegnum brim og stórveður til þessa dags til blessunar fyrir land og lýð. Það sem gerst hefur er að fjölhyggjan, er kraumar undir svo víða í heiminum, hefur nú komið rækilega fram á yfirborðið og skelfir veröldina meir en áður með öllum sínum hryðjuverkum. Orðabók menningarsjóðs lýsir hugtakinu fjölhyggja þannig: “Heimspekiskoðun, sem gerir ráð fyrir mörgum og sundurleitum undirstöðuþáttum tilverunnar.” Þetta er það nákvæmlega sem þjakar heiminn í dag og það sýnir okkur hvers virði það er, að eiga og varðveita hina réttu undirstöðu, bæði sem einstaklingur og þjóð. Því var það, sem skáldið sagði í kvæðinu Lilju, sem allir vildu ort hafa:
“Varðar mest til allra orða
að undirstaða sé réttleg fundin.”
Og hér er ég þá kominn að því, sem er erindi þessa bréfs, en það er að fylgja eftir þeim ljóðum, er því fylgja. Í þeim kemur fram það, sem mér liggur á hjarta og ég vildi sagt hafa að gefnu tilefni. Ég ber mikið traust til þín og nefndarinnar. Það er fyrst og fremst af umhyggju fyrir velferð þjóðarinnar sem ég tel samband ríkis og kirkju svo mikilvægt. Hvar værum við stödd með “Gott siðferði og allsherjarreglu” ef við hefðum ekki hinn kristna grunn að byggja á? “Í lausu lofti,” liggur mér við að segja.
Ég lýk svo máli mínu með einlægum óskum, að starf ykkar megi verða til mikillar blessunar fyrir stjórnarskrá okkar og íslensku þjóðina um ókomna daga.
Virðingarfyllst,
Sign. Pétur Sigurgeirsson
Stjórnarskráin byggir á kristniÞað landsmenn vorir löngum sjá,
að ljós og myrkur skiptast á.
Sé ljósið meira myrkur flýr
Því myrkur ei í ljósi býr.Með kærleik Guðs ein kemur trú,
og kristin lýsi vakning sú.
Í stjaka lífsins ljós er sett,
um leið er myrki þar af létt.Öll fjölhyggjan með fár í sér,
ei fólki voru gagnast hér.
Hvar ósiðferðið eins á rétt
mest illverk gerast – jafnt og þétt.
Kom auga fyrir auga skjótt,
þá óvild magnast líka fljótt.
Víst hefnd er ætíð söm við sig,
og setur deilu á verra stig.Fólk á valdi vopna er,
það versta böl um heiminn fer.
En þvert á móti vilja hans,
sem veröld skóp og tilurð manns.
Þar óhlýðni var upphafs synd,
og illt varð sundrung frá Guðs mynd.
En Guð vor kom með kærleikann,
í Kristi gaf hann sátt – þér ann.Kom feldi undir friðar ráð,
á Fróni reyndist mesta dáð.
En Þorgeir stefnu þá hann tók,
sem þrykkt er út á helgri bók,
og almenn reglan reist er á.
Þar ráðgjöf siðferðis menn fá.
Í anda Krists er upp byggð skrá,
en án hans – festi vantar þá.Í heljar greip það hneppti mann,
ef hans við grunn leyst yrði rann.
Vor stjórnarskrá með stjórnvald fer,
og staðfestan þjóðkirkju er.
Í kjarnargrein, er strax kom inn,
þar Kristur lagði grundvöll sinn.
Hver kynslóð þarf – vill þús-öld tjá,
að þroskast braut Guðs ríkis á.Pétur Sigurgeirsson
Stjórnarskráin var og er grundvölluð, en hvað verður ?
Greinar 62 og 63Í veröld er fjölhyggjan vandasamt mál,
er varðar hver þjóðfélag – mannlíf og sál.
Þar góðan má ávöxt sem illgresi fá,
því uppskeran verður sem niður menn sá.Eins tjáir oss innrætið – tungan ei síst,
og tegundir athafna hugsanir víst.
Hver staðan á jörðu með staðreynd er þá,
að stjórn vald sitt byggi það kærleika á.Því siðferðið góða í samfélag þarf,
það sett var í stjórnarskrá – fengið í arf,
og almannareglan þar algild og mæt
sem umferðarlögin. Á stræti þín gæt!Já, - þjóðin má fagna – og þakka Krists-sið,
í þúsund ár best kom hann menningu við.
Ei stjórnarskrár gæðin – hans gildi tak burt.
Hans góðvild oss nærir sem lífræn er jurt.Pétur Sigurgeirsson