Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2005 Innviðaráðuneytið

Aðskilnaður stjórnsýslu og þjónustu flugmála

Stýrihópur sem samgönguráðherra skipaði hefur skilað tillögum sínum um framtíðarskipan flugmála.

Skýrsla stýrihóps um framtíðarskipan flugmála
Skýrsla stýrihóps um framtíðarskipan flugmála

Í skýrslu hópsins segir að miklar breytingar í umhverfi flugsamgangna hérlendis og erlendis, nýjar alþjóðlegar kröfur um aðskilnað stjórnsýslu, eftirlits og þjónustu, aukin samkeppni og breytingar á skipulagi flugmála hjá nágrannaþjóðunum kalli á nýja skipan þessara mála hér á landi. Sérstaklega er bent á að miklar tækniframfarir og skipulagsbreytingar hjá nágrannaþjóðunum hvað varðar flugumferðarþjónustu hafi leitt til aukinnar samkeppni við að veita þessa þjónustu og möguleika til hagræðingar á alþjóðavísu. Í ljósi þessa markaðist vinna stýrihópsins að því að ná eftirfarandi markmiðum:

  1. Að skilja að eftirlits- og þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar samanber erlendar og innlendar kröfur þar að lútandi
  2. Að auka gagnsæi stjórnsýslunnar, skilvirkni og góða stjórnsýsluhætti.
  3. Að auka skilvirkni þjónustustarfseminnar og samkeppnishæfni flugumferðarþjónustunnar.

Það er sjónarmið hópsins að með aðskilnaði stjórnsýslu og þjónustu náist fram skýr og hagkvæm verkaskipting málaflokksins. Aðskilnaðurinn komi í veg fyrir hagsmunaárekstra sem verða þegar einn og sami aðilinn hefur eftirlit með sjálfum sér.

Í skýrslunni eru sett fram viðmið og faglegt mat lagt á fjóra valkosti, auk þess sem Flugmálastjórn mat kostnað við þá. Valkostirnir miða allir við að skipta núverandi starfsemi upp í tvö fyrirtæki, þar sem eftirlit og eftir atvikum stjórnsýsla yrði í öðru fyrirtækinu en þjónusta í hinu. Niðurstaða stýrihópsins er að mæla með því að þjónustustarfsemi Flugmálastjórnar verði færð í hlutafélag í eigu ríkisins og flugöryggissvið og stjórnsýsla yrði rekið sem B-hluta stofnun.

Skýrslan var kynnt fyrir starfsfólki Flugmálastjórnar síðastliðinn föstudag og á næstunni mun samgönguráðherra taka afstöðu til hennar.

Skýrslan í heild sinni (PDF - 236KB)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta