Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2005 Matvælaráðuneytið

Veiðar á norsk-íslenskri síld.

Fréttatilkynning

um veiðar á norsk-íslenskri síld.

 

 

            Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að íslenskum skipum verði heimilt að veiða 157.700 lestir af norsk-íslenskri síld á þessu ári.  Samkvæmt vísindaráðgjöf frá Alþjóðahafrannsóknaráðinu (ICES) er lagt til að veiddar verði 890 þús. lestir alls úr stofninum á yfirstandandi ári og er það í samræmi við langtímastjórnun á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum. Almennt samkomulag er meðal þeirra ríkja sem eiga hlut í stofninum um að nota þessa ráðgjöf sem viðmiðun.

 

            Samkvæmt þeirri skiptingu sem ríkti á meðan samningar voru í gildi um stjórn veiða úr stofninum, var hlutur Íslands 15,54% af leyfilegum heildarafla. Samkvæmt því hefði hlutur Íslands orðið 138,300 tonn á þessu ári.  Norðmenn hafa hins vegar ekki viljað fallast á skiptingu heildarmagnsins á óbreyttum forsendum  og krafist þess að fá stærri hlut en þeir hafa haft samkvæmt fyrri samningum.  Til að fylgja þeirri kröfu eftir settu þeir sér kvóta fyrir árið 2005 sem er 14% hærri en sá kvóti sem Noregur hefði fengið samkvæmt fyrri skiptingu.

 

            Sjávarútvegsráðherra sendi sjávarútvegsráðherra Noregs bréf þann 2. mars 2005 þar sem Norðmenn eru hvattir til að endurskoða ákvörðun sína og bent er á að ef þeir geri það ekki neyðist Íslendingar til þess að setja sér hærri kvóta en þeir hefðu annars gert. Þannig yrði hækkun Íslendinga að vera í það minnsta til jafns við hækkun Norðmanna.

 

            Í ljósi þess að ekkert bendir til þess að Norðmenn muni endurskoða ákvörðun sína um aflaheimildir í norsk-íslenskri síld árið 2005, þá hefur verið ákveðið, að veiðiheimildir íslenskra skipa verði 14% hærri en sem nemur 138.300 tonnum og er því íslenskum skipum heimilað að veiða 157.700 tonn árið 2005.

 

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 15. apríl 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta