Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Árvakur hf. fær umhverfismerkið Svaninn

Ávarp umhverfisráðherra við afhendingu Norræna umhverfismerkisins, Svansins, til Árvakurs hf. fyrir ákveðna gerð prentgripa, þ.e. fyrir sérblöð Morgunblaðsins, þann 18. maí 2004 kl. 14.00.

Ágætu gestir,

Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag og afhenda Árvakri hf. Norræna umhverfismerkið Svaninn. Svanurinn, er elsta fjölþjóðlega merki sinnar tegundar í heiminum, sem er táknrænt fyrir þá forystu sem Norðurlöndin hafa að mörgu leyti tekið í umhverfismálum. Norðurlöndin hafa einnig verið í forystu og á margan hátt lagt línurnar um Evrópska umhverfismerkið, Blómið. Hátt á ellefta hundrað fyrirtæka og þjónustuaðila bjóða í dag Svansmerktar vörur og þjónustu á Norðurlöndunum. Þeir einir fá að nota Svansmerkið, sem uppfylla strangar kröfur um gæði og takmörkun umhverfisáhrifa.

Neytendur allir, þ.e. almenningur, fyrirtæki og hið opinbera, gefa umhverfismálum vaxandi gaum og vilja tryggingu fyrir því að sú vara eða þjónusta sem keypt er skaði ekki umhverfið. Einfaldasta og öflugasta leiðin til þess er að styðjast við viðurkennd umhverfismerki á borð við Norræna umhverfismerkið. Það er því fagnaðarefni að íslensk fyrirtæki eru farin að sjá gagnsemi þess að fá þann gæðastimpil sem Svanurinn sannarlega er.

Ríkar kröfur eru gerðar til Svansmerktra prentgripa. Tryggt er að umhverfisáhrif hafa verið lágmörkuð og nær það til alls ferils prentgripsins, þ.e. frá trénu til endanlegrar förgunar hans. Öll efnavara og allur pappír sem notaður er í Svansmerkta prentgripi hafa staðist eftirlit sérfræðinga Svansins og tryggt er að notkun umhverfisskaðlegra efna er í lágmarki. Þá á að vera auðvelt að endurnýta prentgripinn. Hluti af þeim viði sem notaður er í pappír í Svansmerkta prentgripi skal vera úr sjálfbærum skógi eða endurunnum pappír og farið er sparlega með orku við pappírsframleiðsluna. Hvað pappírinn varðar er ljóst að eftirspurn prentsmiðja eftir pappír þar sem umhverfisáhrif hafa verið lágmörkuð kalla væntanlega á aukið framboð á slíkum pappír og þar með ætti umhverfisálag við framleiðslu á pappír að minnka. Rannsóknir á umhverfisáhrifum við framleiðslu prentgripa hafa sýnt að pappírinn vegur þyngst þegar heildarumhverfisáhrif eru skoðuð.

Rík áhersla hefur verið lögð á umhverfismál hjá Árvakri. Nú í haust var tekin í notkun þessi nýja prentsmiðja sem hér er og er búnaður hennar afar góður með tilliti til umhverfisþátta. Stjórnendur Morgunblaðsins hafa sýnt umhverfismálum mikinn áhuga í hinum daglega rekstri og hafa á margan hátt verið langt á undan öðrum stjórnendum að gera sér grein fyrir mikilvægi þessa málaflokks í rekstri stórfyrirtækis eins og Morgunblasins. Fyrirtækið hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar undanfarin ár fyrir vinnu sína í umhverfismálum, eins og Viðurkenningu Umhverfisráðuneytisins árin 1996 og 2002, Umhverfisviðurkenningu Iðnlánasjóðs 1997, Umhverfisviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 1999 og tveimur árum fyrr viðurkenningu Reykjavíkurborgar vegna lóðarinnar við hús þess í Kringlunni. Síðast en ekki síst má nefna að fyrirtækið fékk árið 2002 ISO 14001 vottun á umhverfistjórnunarkerfi sínu og er vottorðið nr. 2 hér á landi.

Auk þess hefur Morgunblaðið fjallað reglulega, ítarlega og faglega um umhverfismál.

Þetta mikla starf sem unnið hefur verið hjá Morgunblaðinu hefur einnig vakið athygli erlendis, sem m.a. birtist í því að fagrit þeirra sem að dagblaðaútgáfu standa, Newspaper Techniques birti ítarlega grein um Morgunblaðið, þar sem fjallað var um gæða- og umhverfistjórnun hjá fyrirtækinu.

Í dag er enn einum áfanga náð þegar sérblöð Morgunblaðsins standast nú kröfur Svansins.

Svanurinn mun nú prýða sérblöð Morgunblaðsins og það sýnir að öll umhverfisáhrif sem viðkomandi prentgripur veldur hafa verið lágmörkuð eins og kostur er. Þetta á eins og ég sagði áðan við um alla þætti í framleiðslu blaðanna, allt frá þeim trjám sem notuð eru í pappírinn til endurnýtingarhæfis hans.

Ég óska Árvakri hf., stjórnendum og öllum starfsmönnum fyrirtækisins, hjartanlega til hamingjum með Svaninn og velfarnaðar á komandi árum og vænti þess að Árvakur haldi áfram árangursríkri forystu meðal íslenskra fyrirtækja á sviði umhverfismála.

Hjartanlegar hamingjuóskir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum