Samningur um tilraun með sveigjanlegra skólastarf í grunnskólum
Menntamálaráðuneytið og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hafa gert með sér samning um tveggja ára tilraunaverkefni um breytingar á viðmiðunarstundaskrá frá því sem kveðið er á um í aðalnámskrá grunnskóla. Áætlað er að u.þ.b. 10 grunnskólar í Reykjavík vinni að verkefninu.
Tilgangurinn er að skapa sveigjanleika í skólastarfi í samræmi við aukið sjálfstæði skóla og áherslu á einstaklingsmiðað nám og samvinnu nemenda. Gert er ráð fyrir að stundaskrá nemenda verði skipulögð í vinnulotum til að auka bæði sveigjanleika í námi og möguleika á vali nemenda og ábyrgð þeirra á eigin námi. Fléttast þar saman bóklegt og verklegt nám, iðkun lista og hreyfing. Auglýst verður eftir þátttökuskólum og gert er ráð fyrir að tilraunaverkefnið hefjist í upphafi næsta skólaárs.
Fræðslumiðstöð Reykjavíkur annast umsjón og framkvæmd verkefnisins en samstarfshópur fulltrúa Fræðslumiðstöðvar og menntamálaráðuneytisins fylgist með framgangi þess. Menntamálaráðuneytið hefur umsjón með viðhorfakönnun við lok samningstímans í ágúst 2007. Síðan verður tekin ákvörðun um hvort framhald verður á verkefninu.