Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2005 Utanríkisráðuneytið

Afhending trúnaðarbréfs

Ólafur Davíðsson, sendiherra, afhenti þann 19. apríl 2005 forseta Póllands, Aleksander Kwasniewski, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Póllandi með aðsetur í Berlín.

Eftir afhendingu trúnaðarbréfsins átti sendiherra fund með forsetanum þar sem rædd voru tvíhliða samskipti ríkjanna, málefni Evrópusambandsins og önnur þau mál sem hæst ber á alþjóðavettvangi. Sendiherra átti einnig viðræður við embættismenn í utanríkisráðuneytinu í Varsjá um samskipti ríkjanna. Pólskt samfélag hefur þróast hratt til vestræns markaðskerfis. Mikilvægir áfangar á þeirri leið hafa verið aðildin að Norður-Atlantshafsbandalaginu í mars 1999 og inngangan í Evrópusambandið. Pólland gekk í Evrópusambandið 1. maí 2004 og er nú sjötta fjölmennasta ríki sambandsins með um 38 millj. íbúa.

Árum saman miðuðust vipskipti Íslands og Póllands við smíðar og lagfæringar fiskiskipa í Póllandi og útflutning Íslendinga á kísiljárni, frystri síld, þorskalýsi og öðru fiskmeti. Í dag er pólski markaðurinn einn af mikilvægustu framtíðarmörkuðum Íslands í Austur-og Mið-Evrópu og sá mikilvægasti í hinum nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins. Áhugi íslenskra aðila á pólska markaðnum hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Nokkur íslensk fyrirtæki starfa á pólska markaðnum, annað hvort með eigin skrifstofur eða í gegnum umboðsmenn.

Fríverslunarsamningur EFTA og Póllands gekk í gildi 1. september 1994. Eftir aðlögunartíma komst á full fríverslun með sjávarafurðir í viðskiptum við Pólland. Við inngöngu Póllands í ESB og niðurfellingu fríverslunarsamningsins var mikilvægt að tryggja að íslensk fyrirtæki nytu ekki lakari kjara en áður. Með aðild Póllands að EES samningnum er þess að vænta að viðskipti og fjárfestingar milli landanna eflist ennfrekar. Ísland hefur upp á margvíslega tækni að bjóða sem gagnast gæti Pólverjum í framtíðar þróun atvinnulífs þeirra og íslensk fyrirtæki vonast til að njóta styrkja úr þróunarsjóði EFTA í samvinnu við pólsk fyrirtæki á þeim sviðum sem Íslendingar geta lagt sitt af mörkum. Af ríkjunum þrettán sem njóta munu styrkja úr sjóðnum er Pólland stærsti styrkþeginn og verður tæpum helmingi fjárins varið til uppbyggingar þar.

Útflutingur til Póllands hefur fimmfaldast síðan árið 2000. Árið 2004 var útflutningur þangað 2.394 millj (fob) í samanburði við 409.9 millj.(fob) árið 2000. Sjávarafurðir eru meginútflutningsafurðin eða 92% af heildarútflutningi þangað að verðmæti 2.208 millj. 2004, þar sem síldarflök eru einn mikilvægasti vöruflokkurinn. Vélar og tæki voru flutt út fyrir 56 millj., lýsi fyrir 50 millj. og gærur og skinn fyrir 15 millj.

Innflutingur frá Póllandi hefur minnkað á síðustu árum. Árið 2004 var verðmæti innflutnings frá Póllandi 1.934 millj. (fob) en árið 2000 nam verðmætið 2.888 millj. (fob).



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta